Hluti af sögu Frakklands í rúm 850 ár

Notre Dame hefur verið eitt af helstu kennileitum Parísarborgar í …
Notre Dame hefur verið eitt af helstu kennileitum Parísarborgar í rúm 850 ár. Hér má sjá ána Signu í forgrunni og kirkjuna þar fyrir aftan í ágúst 2018. AFP

„Hjarta Parísar brennur.“ Svo hljóðuðu viðbrögð Laufeyjar Helgadóttur listfræðings við brunanum í Notre Dame-dómkirkjunni í París. Kirkjan, sem er eitt sögufrægasta mannvirki Evrópu, og hef­ur lifað af frönsku bylt­ing­una og tvær heims­styrj­ald­ir, varð eldinum að bráð í gær. Ljóst er að gríðarleg eyðilegging er af völdum brunans þótt tekist hafi að bjarga ýmsum gersemum og forða kirkjunni frá gjöreyðileggingu.

Notre Dame, eða Frúarkirkja, sem helguð er Maríu mey, á sérstakan stað í hjörtum margra Frakka, hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki. Kirkjan er án efa merkasta mannvirki borgarinnar og er sögð vera í miðju Parísar þar sem miðað er við torgið fyrir framan kirkjuna þegar vegalengdir eru mældar. Eiffel-turninn trekkir ef til vill fleiri að, en hann er „einungis“ rúmlega aldargamall á meðan Notre Dame hefur verið hluti af franski menningu, sögu og trú frá því á 12. öld.

Fyr­ir og eft­ir elds­voðann. Til vinstri er Notre Dame-dóm­kirkj­an í …
Fyr­ir og eft­ir elds­voðann. Til vinstri er Notre Dame-dóm­kirkj­an í mars árið 2014 og mynd­in til hægri er tek­in í dag, 16. apríl 2019. AFP

Vagga gotneska byggingarstílsins

Kirkjan var byggð á árunum 1163-1345 og stendur á eystri hluta eyjunnar Île de la Cité. Notre Dame er álitin vagga gotneska byggingarstílsins, sem varð til í Frakklandi á þessum tíma. Maurice de Sully biskup fyrirskipaði byggingu kirkjunnar, og var horn­steinn lagður að kirkj­unni árið 1163 að viðstödd­um Al­ex­and­er III páfa.

Byggingarferlið stóð yfir í tæp 200 ár og var á þeim tíma talið mikið verkfræðiundur. Gotneski stíllinn fól í sér tækni sem gerði mönnum kleift að byggja stærri og hærri byggingar og var kirkjan meðal fyrstu mannvirkja í heiminum þar sem notast var við veggstoðir, sem studdu kirkjuna utan frá. Ekki var gert ráð fyrir þeim í upphafi byggingartímans, en þegar skemmdir fóru að myndast í bygginunni eftir því sem hún varð hærri var gripið til þessa ráðs.

Heildarflatarmál kirkjunnar er 5.200 fermetrar en kirkjan sjálf að innan er 4.800 fermetrar. Klukkuturnarnir tveir eru 69 metra háir og turnspíran, sem féll til jarðar þegar eldurinn hafði logað í rúman klukkutíma, er 90 metra há. Kirkjan, sem myndar kross séð úr lofti, er 128 metra löng. Notre Dame hef­ur verið á heims­minja­skrá UNESCO frá 1991.

Notre Dame var byggð á miðöldum og hefur uppbygging Parísarborgar …
Notre Dame var byggð á miðöldum og hefur uppbygging Parísarborgar orðið í kringum hana. Grafík/mbl.is

Rósagluggar, ufsagrýlur og flís úr krossi Krists

Innan jafnt sem utan veggja hennar má finna sögu Frakklands sem spannar fleiri aldir, menningarleg verðmæti og fjölmarga ómetanlega listmuni. Að utanverðu eru rósagluggarnir þrír líklega þekktastir sem og ufsagrýlurnar, höggmyndir sem prýða þak kirkjunnar. Inni í kirkjunni sjálfri eru fjölmörg málverk, en þó engin af þeim allra merkustu í listasögunni. Stærstu málverkin urðu eldinum ekki að bráð, en urðu fyrir talsverðum vatnsskemmdum, og verða flutt á Louvre-safnið á föstudag, að því er New York Times hefur eftir Franck Riester, menningarmálaráðherra Frakklands.

Þá er óvitað fyrir hversu miklu hnjaski höggmyndir og glerlistaverk í gluggum kirkjunnar hafa orðið. Afdrif flísar, sem sögur segja að sé úr krossinum sem Jesú var krossfestur á, eru heldur ekki þekkt.

Þar sem framkvæmdir hafa staðið yfir við kirkjuna voru ýmsir helgir munir fjarlægðir tímabundið, til að mynda þyrnikóróna Krists. Þá tókst einnig að bjarga kyrtli sem sagt er að Lúðvík kon­ung­ur ní­undi hafi klæðst er hann kom með þyrnikór­ón­una til Par­ís­ar.

Óljóst er fyrir hversu miklu tjóni hinir ýmsu listmunir urðu …
Óljóst er fyrir hversu miklu tjóni hinir ýmsu listmunir urðu í eldsvoðanum. AFP

Quasimodo og Esmeralda komu Notre Dame á kortið

Margir tengja kirkjuna við eitt af merkari bókmenntaverkum Frakklands, skáldsöguna um Hringjarann frá Notre Dame eftir Victor Hugo sem kom út árið 1831 og kom kirkjunni svo sannarlega á kortið, ekki síst eftir að kvikmynd var gerð eftir sögunni 1931. Á tíunda áratug síðustu aldar tók Disney Quasimodo og Esmeröldu upp á sína arma með teiknimynd um Hringjarann frá Notre Dame sem ýtti enn frekar undir vinsældir kirkjunnar.

Haldið var upp á 850 ára afmæli kirkjunnar fyrir sex árum og heimsóttu um 20 milljónir manns kirkjuna á afmælisárinu. Kirkjan fékk þá allsherjarhreingerningu, nýja lýsingu, kirkjuklukkurnar voru endurnýjaðar að hluta og orgelið, með sínar 8.000 pípur, var gert upp. Orgelið er einn þeirra muna sem tókst að bjarga í eldsvoðanum.

Notre Dame létti lund Parísarbúa

Henri Astier, blaðamaður BBC í París, lýsir tilfinningunum sem fara í gegnum huga hans eftir atburði gærdagsins. „Parísarbúar eru ekki þekktir fyrir glaðlegt lunderni en það eru fáir sem geta gengið meðfram bökkum Signu án þess að lundin léttist þegar horft er yfir til tignarlegu Notre Dame,“ segir Astier og bætir því við að kirkjan sé eitt af því fáa sem lætur Parísarbúa líða vel með heimkynni sín.

Notre Dame-dómkirkjan snævi þakin í febrúar 2018.
Notre Dame-dómkirkjan snævi þakin í febrúar 2018. AFP

Á þeim 30 árum sem Astier hefur búið í heimaborg sinni hefur hann einungis komið þrisvar eða fjórum sinnum inn í sjálfa Notre Dame, og alltaf í fylgd með ferðamönnum. Notre Dame er jú vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Vestur-Evrópu. 12 milljónir manns heimsækja kirkjuna árlega en kirkjan þjónar á sama tíma upphaflegu hlutverki sem samkomustaður fyrir trúarlegar athafnir. Yfir 2.000 athafnir fara fram í kirkjunni árlega, að meðaltali fimm á dag. 

En Notre Dame er meira en aðdráttarafl fyrir ferðamenn og trúarlegt tákn, hún er sameiningartákn fyrir alla Frakka, eða líkt og Macron sagði í gær í ávarpi sínu: „Þetta er hroðalegur harmleikur. Það er átakanlegt að horfa á hluta af okkur öllum brenna.“ Macron hefur heitið því að Frúarkirkjan verði endurbyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert