Eldsvoðinn í hnotskurn

Klukkan 18.50 að staðartíma í gær, 16.50 að íslenskum tíma, var fyrst tilkynnt um reykjarbólstra frá Notre Dame-dómkirkjunni í Parísarborg. Eldtungur sáust svo í nágrenni klukkuturnanna tveggja. Byggingin var rýmd þegar í stað og slökkvilið hófst handa við að reyna að ná tökum á eldinum. Það tók níu klukkustundir og það var ekki fyrr en á áttunda tímanum í morgun sem því var fyrst lýst yfir að eldurinn hefði verið slökktur.

Hér að neðan verður atburðarás eldsvoðans mikla í Notre Dame rakin.

Eftir að eldsins varð vart var svæði umhverfis kirkjuna þegar lokað. Franskir fjölmiðlar höfðu strax eftir slökkviliðinu að mögulega hefði eldurinn kviknað vegna viðgerða sem stóðu yfir á hinni 850 ára gömlu byggingu.

Steinbyggingin stendur enn en allt trévirki er brunnið.
Steinbyggingin stendur enn en allt trévirki er brunnið. AFP

Klukkan 17.05 að íslenskum tíma hafði eldurinn komist í turnspíru kirkjunnar og hún hrundi. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, frestaði þegar í stað því að ávarpa þjóðina sem til stóð skömmu síðar. Í því ætlaði hann að tilkynna um aðgerðaáætlun sína til að lægja mótmælaöldur í landinu.

Klukkan 17.10 sagði talsmaður Notre Dame að öll byggingin stæði nánast í ljósum logum.

Klukkan 17.30 reyndu björgunarmenn að bjarga ómetanlegum gersemum sem geymdar voru inni í kirkjunni. Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, staðfesti svo að tekist hefði að bjarga þyrnikórónu Krists, kyrtli Lúðvíks níunda konungs og nokkrum mikilvægum listmunum. Á sama tíma greindi talsmaður kirkjunnar frá því að allt tréverk kirkjunnar væri alelda og líklega gjörónýtt.

Klukkan 18.20 var Macron forseti mættur á vettvang til að ræða við lögreglu og slökkviliðsmenn.

Um tíu mínútum síðar er ljóst að eldurinn var kominn í annan turn kirkjunnar og hóf að breiðast út innandyra.

Notre Dame varð nær alelda á stuttum tíma.
Notre Dame varð nær alelda á stuttum tíma. AFP

Klukkan 18.50 sagði talsmaður innanríkisráðuneytisins að hugsanlega væri ómögulegt fyrir slökkviliðið að bjarga kirkjunni.

Klukkan 19.05 sagði slökkviliðsstjórinn Jean-Claude Gallet það óvíst að hægt yrði að stöðva útbreiðslu eldsins og koma í veg fyrir frekari skemmdir. „Ef hún hrynur þá getur þú rétt ímyndað þér hverjar skemmdirnar yrðu.“

Kirkjan logar stafna á milli.
Kirkjan logar stafna á milli. AFP

Klukkan 19.30 voru um 400 slökkviliðsmenn að störfum við kirkjuna. Enn var þá óttast að eldurinn myndi gjöreyðileggja bygginguna. Upp var gefið að eldsupptök væru ókunn á því stigi. Parísarbúar fjölmenntu við kirkjuna og báðu fyrir henni.

Klukkan átta voru slökkviliðsmenn orðnir bjartsýnni á að hægt yrði að bjarga steinbyggingunni og tveimur turnum hennar. Slökkviliðsstjórinn staðfestir svo að þetta verkefni hefði tekist. Íbúðahverfi í nágrenni Notre Dame er rýmt í öryggisskyni.

Emmanuel Macron og eiginkona hans Brigitte fyrir utan Notre Dame …
Emmanuel Macron og eiginkona hans Brigitte fyrir utan Notre Dame í gærkvöldi. AFP

Klukkan 20.20 bárust fréttir af því að einn slökkviliðsmaður hefði slasast alvarlega við störf sín. Saksóknari sagði að ekkert benti til þess, á því stigi, að um íkveikju hefði verið að ræða en rannsókn hófst þá þegar.

Skömmu síðar flutti Macron forseti ávarp fyrir utan kirkjuna og sagði eldsvoðann „hroðalegan harmleik“ og að átakanlegt væri að horfa á „hluta af okkur öllum brenna“. Hann hét því að endurbyggja Notre Dame.

Klukkan 8 í morgun að íslenskum tíma var því svo formlega lýst yfir að eldurinn væri slökktur. Þá höfðu Parísarbúar vaknað við það að þessi mikla dómkirkja var eins og kolamoli við sólarupprás.

Samantekt Sky

Notre Dame séð úr lofti í júlí árið 2017.
Notre Dame séð úr lofti í júlí árið 2017. AFP
Margir fylgdust með því er kirkjan brann í gær. Sumir …
Margir fylgdust með því er kirkjan brann í gær. Sumir lögðust á bæn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert