Tókst að bjarga ýmsum gersemum

Vatni sprautað á steinbygginguna til að bjarga henni frá gjöreyðileggingu. ...
Vatni sprautað á steinbygginguna til að bjarga henni frá gjöreyðileggingu. Það verkefni er talið hafa tekist. AFP

Það tók slökkviliðsmenn níu klukkustundir að ná tökum á eldinum sem logaði í Notre Dame-dómkirkjunni í París í gær. Þeir lögðu áherslu á að bjarga aðalsteinbyggingunni, þar á meðal tveimur turnum hennar, og segja það verkefni hafa tekist. En turnspíran brann til kaldra kola sem og þak kirkjunnar. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, komst við á vettvangi í gær og hét því að láta endurreisa kirkjuna og safna fé til verksins. „Við munum endurbyggja þessa dómkirkju saman því hún er samtvinnuð örlögum Frakklands,“ sagði Macron m.a. „Það er það sem Frakkar ætlast til og það er það sem sagan okkar á skilið.“

Milljarðamæringurinn François-Henri Pinault, stjórnarformaður og forstjóri Kerring-hópsins sem á Gucci og Yves Saint Laurent-tískuhúsin, hefur þegar heitið því að láta um 100 milljónir evra, 13,5 milljarða króna, af hendi rakna til endurbyggingarinnar. Einnig hefur milljarðamæringurinn Bernard Arnauld heitið 200 milljónum evra, um 27 milljörðum króna, til endurbótanna.

Í slökkvistarfinu var lögð áhersla á að bjarga steinbyggingunni sjálfri.
Í slökkvistarfinu var lögð áhersla á að bjarga steinbyggingunni sjálfri. AFP

Eldsupptök eru enn ókunn en miklar viðgerðir stóðu yfir á kirkjunni er eldurinn kviknaði. Rannsókn á málinu er þegar hafin. Einn slökkviliðsmaður slasaðist alvarlega við slökkvistörfin í gær.

Notre Dame, Frúarkirkjan, var reist á tólftu og þrettándu öld og er því um 850 ára gömul. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Í henni eru geymdar ýmsar ómetanlegar gersemar og tókst að bjarga hluta þeirra. Meðal þess sem tókst að bjarga er það sem sagt er vera þyrnikóróna Krists sem hann bar við krossfestinguna. Einnig tókst að bjarga kyrtli sem sagt er að Lúðvík konungur níundi hafi klæðst er hann kom með þyrnikórónuna til Parísar. 

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, segir að allir hafi staðið saman að því að bjarga þessum trúar- og sagnfræðilegu verðmætum sem og listaverkum. „Þetta er harmleikur fyrir allan heiminn. Notre Dame er öll saga Parísar.“

Skemmdirnar á kirkjunni eru gríðarlegar eftir eldinn.
Skemmdirnar á kirkjunni eru gríðarlegar eftir eldinn. AFP

Sagnfræðingurinn Camille Pascal segir að ómetanlegur þjóðararfur hafi eyðilagst í eldinum. „Gleðilegir og miður gleðilegir viðburðir í gegnum aldirnar hafa orðið undir klukknahljómi Notre Dame.“

Eldurinn kviknaði um klukkan 16.30 að íslenskum tíma í gær og náði fljótt að læsa sér í þak dómkirkjunnar, eyðileggja steinda glugga hennar og allt tréverk. Hann felldi að lokum turnspíru kirkjunnar.

Slökkviliðsmenn eyddu miklum tíma í að reyna að koma í veg fyrir að annar af kirkjuturnunum hryndi. Í dag verður unnið að því að meta skemmdir.

Það tók slökkviliðsmenn níu klukkustundir að ná tökum á eldinum ...
Það tók slökkviliðsmenn níu klukkustundir að ná tökum á eldinum í Notre Dame. AFP

Viðgerðir stóðu yfir á hluta byggingarinnar og vegna þeirra höfðu sextán koparstyttur verið fjarlægðar úr henni í síðustu viku. Viðgerðirnar hófust eftir að sprungur höfðu fundist í byggingunni og óttast var að hún yrði ekki örugg.

Um 500 slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistörfum í gær og nótt.

mbl.is
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...
Kaupi notaðar hljómplötur. Sími 696 1909.
Kaupi notaðar hljómplötur. Sími 696 1909....
Tæki fyrir fjórhjólið
Fjölmörg tæki í boði fyrir fjórhjólið www.hardskafi.is...
Lítið sumarhús
Til leigu lítið sumarhús 25km. frá Akureyri, svefnpláss fyrir 2-4, WiFi- ljóslei...