Moreno: Assange makaði saur á veggina

Julian Assange, daginn sem hann var handtekinn í sendiráði Ekvador …
Julian Assange, daginn sem hann var handtekinn í sendiráði Ekvador í London, og Lenín Moreno, forseti Ekvador. Skjáskot/BBC

Vanvirðing og móðganir í garð stjórnvalda í Ekvador eru meðal ástæðna þess að stjórnvöld þar í landi afturkölluðu pólitískt hæli Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Í viðtali BBC við forseta Ekvador, Lenín Moreno, nefnir hann einnig ákveðnar gjörðir Assange í sendiráði Ekvador í London sem fylltu mælinn.

„Ég biðst afsökunar á að þurfa að segja þetta á þessum vettvangi, en hann makaði jafnvel eigin saur á veggi sendiráðs okkar. Að mínu mati er þetta nægileg ástæða til að afturkalla og binda enda á hæli hans,“ segir Moreno í viðtalinu, sem sjá má í heild sinni neðst í fréttinni.

Assange var hand­tek­inn í London á fimmtu­dags­morg­un eft­ir að hafa dvalið sjö ár í sendi­ráði Ekvador í borg­inni. Lögmaður Assange segir að ásakanir ekvadorskra stjórnvalda á hendur honum séu svívirðilegar. Í viðtalinu fullyrðir Moreno einnig að Assange hafi notað sendiráðið sem njósnamiðstöð og brotið ítrekað gegn skilmálum hælis hans.

Moreno var spurður hvort hann fyndi fyrir létti, nú þegar Assange er ekki lengur í sendiráði Ekvador í London. „Ég held að allir íbúar í Ekvador finni fyrir létti,“ sagði forsetinn og vísaði í nýlega könnun sem sýnir að 80% Ekvadora hafi viljað Assange úr sendiráðinu. „Hann hagaði sér ekki eins og hælisleitanda sæmir, hann bar ekki virðingu fyrir landi og þjóð sem bauð honum hlýjar móttökur með húsnæði og mat.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert