Fyrrum forseti skaut sig við handtöku

Alan Garcia fyrrverandi forseti Perú skaut sig í höfuðið þegar …
Alan Garcia fyrrverandi forseti Perú skaut sig í höfuðið þegar lögreglan ætlaði að handtaka hann í morgun. AFP

Fyrrverandi forseti Perú, Alan García, skaut sjálfan sig í höfuðið í þann mund sem lögreglan birtist heima hjá honum og hugðist handtaka hann. Hann var fluttur á sjúkrahús í borginni Lima þar sem hann gekkst undir aðgerð á höfði. Ástand hans er sagt viðkvæmt og óvíst hvort læknar nái að bjarga lífi hans. Atvikið átti sér stað snemma í morgun. 

Garcia gegndi embætti forseta á árunum 1985 - 1990 og aftur 2006 - 2011. Hann sætir lögreglurannsókn vegna spillingar í opinberu starfi. Hann er sakaður um að þiggja mútur af byggingafyrirtækinu Odebrecht í skiptum fyrir verkefni á vegum ríkisins.  

Hann hefur ávallt neitað sök í málinu. Í nóvember sótti hann um hæli í ungverska sendiráðinu. Mánuði síðar var honum gert að yfirgefa það því honum var neitað um hæli. 

Garcia er einn af þremur fyrrverandi forsetum landsins sem er flæktur í stórfellt spillingarmál. Hinir þrír eru Ollanta Humala og Alejandro Toledo. 

Byggingafyrirtækið hefur viðurkennt að hafa greitt 29 miljónir dollara í mútufé til stjórnvalda í Perú á þremur kjörtímabilum. Hluti af mútunum áttu sér stað þegar Garcia var við stjórnvöl í seinna skiptið og vörðuðu byggingu á neðanjarðarlestarkerfinu í Lima. 

Fjölmiðlar í Perú fullyrða einnig að Garcia hafi þegið 100 þúsund dollara úr ólöglegum sjóði fyrirtækisins fyrir að halda ræðu fyrir brasilíska viðskiptaleiðtoga í Sao Paulo í maí árið 2012. 

Garcia laut í lægra haldi fyrir Oll­anta Humala í forsetakosningum árið 2011. Humala er einnig sakaður um spillingu og lét af embætti í júlí 2016. Núverandi forseti landsins er Martín Vizcarra Cornejo og hann tók við embætti 23. mars 2018.  

Lögreglan stendur vaktina fyrir utan Casimiro Ulloa sjúkrahúsið í Lima …
Lögreglan stendur vaktina fyrir utan Casimiro Ulloa sjúkrahúsið í Lima þar sem læknar reyna að bjarga lífi fyrrverandi forsetans. AFP
mbl.is