Grunaður um 100 nauðganir

Í Pineville búa um 15 þúsund manns.
Í Pineville búa um 15 þúsund manns. Af Facebook-síðu Pineville

71 árs karlmaður í Louisiana hefur verið handtekinn, grunaður um 100 nauðganir á börnum. Í frétt CNN um málið segir að Harvey Joseph Fountain frá smábænum Pineville hafi verið handtekinn í síðustu viku, átta dögum eftir að eitt fórnarlamba hans, nú komið á fullorðinsár, kærði hann til lögreglunnar fyrir að hafa nauðgað sér á barnsaldri.

Lögreglan hóf að rannsaka málið og aflaði sönnunargagna sem studdu ásakanirnar. Við þá rannsókn vöknuðu grunsemdir um að fórnarlömb Fountains væru mun fleiri, að því er CNN hefur eftir lögreglustjóranum Stephen Phillips.

Nauðganirnar áttu sér stað frá því snemma á áttunda áratugnum og fram á þann níunda. Í öllum tilvikum voru fórnarlömbin yngri en þrettán ára og áttu þær sér stað á heimili Fountains í Pineville. 

Phillips segist ekki geta greint frá því að svo stöddu hversu mörg börn eru talin eru hafa verið fórnarlömb Fountains. 

Það fórnarlamb sem fyrst vakti athygli lögreglu á málinu gaf upp nöfn fleiri hugsanlegra fórnarlamba. Er Fountain var handtekinn var hann grunaður um 50 nauðganir en nú er hann grunaður um minnst 100.

Verði Fountain fundinn sekur á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsi eða dauðadóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert