Með nammi fyrir 170.000

Þessi skrapp til Gautaborgar og náði sér í ódýrt sælgæti …
Þessi skrapp til Gautaborgar og náði sér í ódýrt sælgæti sem hann hugðist selja í Noregi fyrir páskana. Norskir sælgætisunnendur finna vel fyrir sykurskattinum í Noregi, 8 norskum krónum á hvert kílógramm, jafnvirði 113 íslenskra króna. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Norskir tollverðir fara ekki varhluta af páskahátíðinni og tekur ýmis varningur að streyma ólöglega yfir landamærin í mun meiri mæli frá verðparadísinni Svíþjóð er nær dregur þessari sem öðrum kirkjuhátíðum.

Nú á dögunum gripu tollverðir við Svínasund mann sem lumaði á sælgæti fyrir 12.000 norskar krónur, 170.000 íslenskar, í bifreið sinni en hámarksverðmæti innflutts varnings án aðflutningsgjalda til Noregs eru 6.000 krónur, 85.000 hérlendar.

Viðurkenndi maðurinn án undanbragða að hafa ætlað varninginn til sölu, að sögn Wenche Fredriksen, deildarstjóra hjá tollgæslunni, en embættið birti mynd og frásögn af athæfinu á Twitter-síðu sinni auk þess sem dagblaðið VG greinir frá málinu í dag.

Hafði átt við fjöðrunarbúnað bifreiðarinnar

Á mánudaginn stöðvaði tollgæslan svo pólskan karlmann á sendiferðabíl sem reyndi tafarlaust að forða sér á hlaupum en var gripinn. Í bifreið hans fundu tollverðir 70.000 sígarettur og 1.047 lítra af sterku áfengi, varning sem með réttu hefðu átt að greiðast 670.000 norskar krónur, rúmar 9,5 milljónir íslenskar, í aðflutningsgjöld af. Hafði maðurinn átt við fjöðrunarbúnað bifreiðarinnar svo ekki sæist að í henni væri fólgið rúmt tonn af smyglvarningi, en Facebook-fréttastofan Østfoldnyheter24 greindi fyrst frá málinu.

Í þessari sendibifreið reyndust 1.047 lítrar af vodka og 70.000 …
Í þessari sendibifreið reyndust 1.047 lítrar af vodka og 70.000 sígarettur og hafði verið átt við fjöðrunarbúnað bifreiðarinnar svo síður sæist hve drekkhlaðin hún væri. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Norðmenn eru mikil páskaþjóð og skirrast ekki við að gera vel við sig um páskana eins og sjá má af smyglskrám tollgæslu vikurnar á undan. Að þessum notalegheitum kveður svo rammt að fjöldi hugtaka sem tengjast ýmiss konar neyslu eða athöfnum lifir í norskri þjóðarsál og má þar sem dæmi nefna páskanammi (n. påskegodt), páskakrimma (n. påskekrim, oftast sjónvarpsefni en líka bækur), páskaspurningakeppni fyrir sumarbústaðinn (n. påskequiz) og síðast en ekki síst páskafjallið (n. påskefjellet), hugtak sem norskir veðurfræðingar nota í fullri alvöru dagana fyrir páska til að spá fyrir um færð á fjallvegum um páskana þegar þúsundir Norðmanna flykkjast í sumarbústaði sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert