Notre Dame var ótryggð

Fram kemur í Le Monde að Notre Dame hafi ekki …
Fram kemur í Le Monde að Notre Dame hafi ekki verið tryggð og að kostnaður við endurgerð kirkjunnar gæti orðið um 136 milljarðar íslenskra króna. AFP

Notre Dame kirkjan í París var ekki tryggð þegar kviknaði í henni, að því er segir í umfjöllun Le Monde. Ástæðan er sögð stefna franskra stjórnvalda um að trúarlegar byggingar í umsjá þeirra séu aðeins tryggðar með ríkisábyrgð og mun því þorri kostnaðar við lagfæringu kirkjunnar falla á ríkissjóð Frakklands.

Franska ríkið er „sinn eigin tryggingasjóður hvað varðar trúarbyggingar í eigu þess,“ segir í svari samtaka franskra tryggingafélaga (Fédération française de l’assurance) við fyrirspurn Le Monde. Þá segir jafnframt að ríkið sé eigandi allra dómkirkna sem byggðar hafa verið fyrir 1905.

„Á tryggingamáli þýðir að tryggja si sjálfur, að þú sért ekki tryggður,“ segir Fredric Durot, forstjóri tjónsviðs hjá tryggingafélaginu Siaci Saint Honore. Mun því megnið af kostnaði við endurgerð kirkjunnar falla á ríkið og hafa tryggingasérfræðingar talið að sá kostnaður geti numið allt að einn milljarð evra, jafnvirði 136 milljarða íslenskra króna.

Stefnan um að tryggja ekki opinberar byggingar hjá tryggingafélögum var sett í reglugerð árið 1889 og var ástæðan sögð vera að hagkvæmara væri fyrir ríkissjóð að standa undir kostnaði í kjölfar skemmda. Reglan var tekin til skoðunar í skýrslu frá 2001 og hefur orðið lítil breyting á stefnunni, en nokkrar stórar byggingar hafa verið tryggðar að hluta eins og Eiffel turninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert