Skólum lokað vegna „trúverðugrar ógnar“

Um 500.000 nemendum í Colorado-ríki er gert að halda sig …
Um 500.000 nemendum í Colorado-ríki er gert að halda sig í heima í dag á meðan lögreglan leitar 18 ára konu sem er sögð haldin þráhyggju gagnvart skotárásinni sem framin var í Columbine-menntaskólanum árið 1999. Um helgina verða liðin 20 ár frá árásinni. Ljósmynd/Twitter

Skólar í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum eru lokaðir í dag þar sem alríkislögreglan leitar 18 ára konu sem talið er að „trúðverðug ógn“ stafi af. Konan, Sol Pais, er sögð haldin þráhyggju gagnvart skotárásinni sem framin var í Columbine-menntaskólanum árið 1999. Á laugardaginn, 20. apríl, verða akkúrat 20 ár liðin frá árásinni.

Pais ferðaðist frá Flórída til Colorado þar sem hún keypti haglabyssu og skotfæri, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. „Hún er vopnuð og álitin stórhættuleg,“ segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum í Jefferson-sýslu. Myndum af Pais hefur verið dreift um ríkið og á samfélagsmiðlum. Pais sást síðast í Colorado á mánudagskvöld.

Ógnin beinist ekki beint að Columbine-menntaskólanum, en almannavarnadeild ríkisins segir að öllum skólum í ríkinu hafi verið lokað vegna öryggisráðstafana. Ljóst er þó að töluverðs skjálfta og jafnvel ótta gætir í ríkinu þessa dagana þegar þess er minnst að 20 ár eru liðin frá því að tveir nemendur við Columbine-skólann myrtu tólf skóla­fé­laga sína og einn kenn­ara, áður en þeir tóku eigin líf á bókasafni skólans. Skotárásin var sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert