Fjölmörg samtöl vegna skýrslunnar

William Barrr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barrr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Starfsmenn bandaríska dómsmálaráðuneytisins hafa átt fjölmörg samtöl við lögfræðinga Hvíta hússins um hvaða niðurstöður er hægt að draga af skýrslu Roberts S. Mueller, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar, um meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016.

New York Times hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum en skýrslan verður gerð opinber á morgun.

Samtölin hafa reynst stoð fyrir lögfræðingateymi Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, sem er í óða önn að undirbúa að hrekja ýmislegt sem kemur fram í skýrslunni og að bregðast við viðbrögðum almennings vegna hennar.

Fram kemur að í skýrslunni komi hugsanlega í ljós hverjir núverandi og fyrrverandi ráðgjafa Trump ræddu við Mueller, hversu mikið þeir sögðu og hve mikill skaðinn af því gæti orðið fyrir forsetann.

mbl.is