Varð að verpa á flugbrautina

Skjaldbakan þurfti að verpa á flugbrautina sem lögð var í …
Skjaldbakan þurfti að verpa á flugbrautina sem lögð var í fyrra. Þar hefur hún væntanlega áður geta verpt beint í sandinn. Skjáskot/Twitter

Risaskjaldbaka sem kom á land til að verpa á lítilli eyju sem tilheyrir Maldíveyjum í Indlandshafi endaði á því að verpa eggjum sínum á flugbraut sem búið var að leggja yfir varpstað hennar á ströndinni. Á mynd sem náðist af þessu má sjá hvar skjaldbakan er að halda aftur til hafs eftir að hafa verpt á malbikið.

Mörgum þykir hér á ferð augljóst dæmi um hvernig mannanna verk eru að eyðileggja búsvæði dýra, m.a. fágætra dýra, og þar með hafa áhrif á heilu vistkerfin.

Um græna sæskjaldböku er að ræða en sú tegund er á lista Alþjóða dýraverndunarsjóðsins yfir dýr í útrýmingarhættu.

Eyjan Noonu er þekkt varpstöð skjaldbaka. Á Maafaru-ströndinni verpa hundruð skjaldbaka árlega. Nýverið var þar lögð flugbraut en svæðið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Skjaldbökur leitast eftir því að verpa á nákvæmlega sömu stöðum og þær klekjast sjálfar úr eggjum á. Þær grafa holu, verpa eggjunum og snúa að því loknu aftur út í hafið. Dæmi eru um að skjaldbökur ferðist langar vegalengdir og jafnvel í mörg ár til að komast á strendurnar sínar til að verpa.

Í frétt Independent um málið segir að skjaldbökunni virðist ekki hafa orðið meint af, að sögn sjónarvotta. Þá hefur staðarfréttablaðið eftir yfirvöldum að heimsóknum sæskjaldbaka á eyjuna hafi ekki fækkað frá því að flugbrautin var lögð á síðasta ári. Hún hefur ekki enn verið tekin í notkun.

„Þessi tiltekna skjaldbaka klaktist mjög líklega út á nákvæmlega þessum stað á ströndinni,“ segir David Godfrey, yfirmaður dýraverndunarsamtakanna Sea Turte Conservancy við dýrafréttasíðuna The Dodo. Hann segir að skjaldbökur gefi sér góðan tíma til að verpa, það gerist ekki í einni hendingu. Því telur hann að dýrið hafi áður reynt að verpa á sama stað en þurft að hætta við þar til hún gat ekki haldið í sér lengur. Líklegt sé að hún muni leita aftur á sömu strönd til að verpa næst. 

Í frétt The Dodo segir að sambærilegir atburðir séu að eiga sér stað víðar í heiminum. Sífellt sé ruðst inn á búsvæði dýra og þrengt að þeim.

mbl.is