Gat ekki ályktað um meint brot Trump

Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum.
Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum, segir í rannsóknarskýrslu sinni sem opinberuð var í dag að hann hafi ekki getað ályktað að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sé saklaus af ásökunum um að hafa hindrað framgang réttvísinnar. Málið varðar rannsókn Mueller á meintum tengslum og samráði forsetans við Rússa í tengslum við forsetakosningar í Bandaríkjunum árið 2016. 

„Ef við hefðum nægilega sterkan grunn eftir ítarlega rannsókn á staðreyndum málsins um að forsetinn hefði ekki staðið í vegi réttvísinnar, þá myndum við fullyrða það,“ segir í skýrslunni. „Á grundvelli staðreyndanna og viðurkenndrar lagaframkvæmdar, þá getum við ekki komist að þeirri niðurstöðu,“ segir ennfremur í skýrslu Mueller.

Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í dag og sagði að ekkert samráð hefði átt sér stað. Í skýrslunni er fjallað um tíu tilvik þar sem grunur var um að Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar í tengslum við málið. Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að forsetinn hefði ekki brotið af sér hvað þetta varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert