Með „hálstak“ á dómsmálaráðuneytinu

Skýrsla Robert Mueller, sérstaks saksóknara FBI (t.v.), þykir veita innsýn ...
Skýrsla Robert Mueller, sérstaks saksóknara FBI (t.v.), þykir veita innsýn í lífið í Hvíta húsinu í forsetatíð Donald Trumps (t.h.). AFP

Skýrsla Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) byggir á tugum viðtala, minnispunktum og samtölum sem notuð eru til að púsla saman hvað átti sér stað í Hvíta húsinu í forsetatíð Donald Trumps. Reuters-fréttaveitan tók saman nokkra slíka punkta sem veitir innsýn í lífið í Hvíta húsinu.

Það var Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra og síðar starfsmannastjóri Hvíta hússins, sem tilkynnti Trump þann 17. maí 2017 að Rod Rosenstein hefið skipað Robert Mueller sérstakan saksóknara. Sessions var þá staddur með Trump á forsetaskrifstofunni þar sem verið var að taka viðtöl vegna ráðningar nýs forstjóra FBI. Sessions brá sér út fyrir til að taka símann er Rosenstein lét hann vita af ráðningunni.

Trump húkti í sæti sínu þegar Sessions kom til baka og tilkynnti honum um skipanina, að því er fram kemur í minnispunktum Jody Hunt, sem var þá starfsmannastjóri Sessions, en hún lét teymi Muellers hafa punktana. „Guð minn góður. Þetta er hræðilegt. Þetta eru endalok forsetatíðar minnar. Ég er í djúpum skít,“ sagði Trump. Hann beindi því næst reiði sinni að Sessions.

„Þú áttir að vernda mig,“ rifjaði Sessions upp að forsetinn hefði sagt við sig.

Því næst harmaði hann mögulegar afleiðingar rannsóknar sérstaks saksóknara. „Það segja mér allir að ef maður fær einn af þessum óháðu saksóknurum þá mun það eyðileggja forsetatíðina. Þær taka fleiri ár og ég mun ekki geta gert neitt. Þetta er það versta sem ég hef nokkurn tímann orðið fyrir,“ á Trump að hafa sagt að sögn bæði Hunt og Sessions.

„Ég sagði aldrei „reka““

John Kelly, þáverandi starfsmannastjóri í Hvíta húsinu, lýsir þá fundi sem hann átti á forsetaskrifstofunni að morgni 6. febrúar 2018 til að reyna að koma á sáttum milli Trump og Don McGahn, lögfræðings Hvíta hússins. Nokkrum mánuðum áður hafði McGahn verið kominn á fremst hlut með að segja af sér eftir að Trump sagði honum að losa sig við Mueller. Nú var Trump hins vegar reiður af því að dagblöðin New York Times og  Washington Post höfðu birt greinar um að McGahn hefði neitað að reka Mueller.

„Ég sagði aldrei að það ætti að reka Muellers,“ sagði Trump þegar fundurinn hófst samkvæmt því sem fram kemur í frásögn McGahns. „Ég sagði aldrei „reka“. Þessi frétt kemur ekki vel út. Þú verður að leiðrétta þetta. Þú ert lögfræðingur Hvíta hússins.“

McGahn neitaði að gera það og sagði greinina í New York Times vera rétta. „Notaði ég orðið „reka“ sagði Trump þá, samkvæmt frásögn bæði McGahn og Kelly. McGahn segist hafa svarað forsetanum: „Þú sagðir: „Hringdu í Rod [Rosenstein]. Segðu Rod að Mueller eigi í hagsmunaárekstri og geti ekki verið sérstakur saksóknari“.“ „Það sagði ég aldrei,“ rifjaði McGahn upp að Trump hafi svarað.

Rússamálið mun loða við eins og tyggjó við skósóla

Chris Christie, þáverandi ríkisstjóri New Jersey greindi sérstökum saksóknara þá frá hádegisverðarfundi sem hann átti með Trump á Valentínusardaginn 2017. Christie varð stuðningsmaður Trumps í árdaga framboðs hans og sagði Trump honum í hádegisverðarboðinu að með því að reka Michael Flynn, fyrrverandi öryggisráðgjafa sinn, þá hefði hann leyst öll sín vandamál.

„Núna þegar ég er búinn að reka Flynn þá er þetta Rússamál úr sögunni,“ rifjar Christie upp að Trump hafi sagt við sig. Christie segist þá hafa hlegið og sagt við forsetann að hann byggist við að Rússamálið yrði enn í umræðunni ári síðar. „Það var vandamál. Ég rak Flynn og þessu er lokið,“ svaraði Trump.

Sagðist Christie, sem er fyrrverandi saksóknari, þá hafa sagt Trump að hann ætti ekki að ræða rannsóknina jafnvel þó að hún pirraði hann. Málið ætti líka eftir að fylgja honum lengi. „Eins og tyggjó sem er fast við skósóla,“ kvaðst hann hafa sagt.

Óttuðust að Trump notaði uppsagnarbréf gegn ráðuneytinu 

Þegar Trump flaug frá Sádi-Arabíu til Tel Aviv í maí 2017 dró hann uppsagnarbréf frá Jeff Sessions upp úr vasa sínum. Sessions hafði skrifaði bréfið tveimur dögum fyrr og sýndi Trump nú ráðgjöfum sínum bréfið.

Hope Hicks var í þeirra hópi og hún sagði rannsakendum að ráðgjafar forsetans hefðu þá þegar haft áhyggjur af bréfinu, sem Sessions hafði afhent forsetanum daginn á undan. Trump og Sessions, sem þá var dómsmálaráherra sammæltust hins vegar um að Sessions myndi gegna starfinu áfram.

Steve Bannon, sem var einn helsti ráðgjafi Trumps og starfsmannastjórinn, Reince Priebus, höfðu áhyggjur af að Trump geymdi bréfið og óttuðust að hann myndi reyna að nota það til að hafa áhrif á dómsmálaráðuneytið. Þeir ákváðu því að reyna að ná því af forsetanum.

Forsetinn var með „hálstak“ á dómsmálaráðuneytinu, sagði Priebus. Þegar Priebus reyndi hins vegar að fá Trump til að afhenda bréfið í Miðausturlandaferð sinni fullyrti Trump hins vegar að bréfi væri einhvers staðar í Hvíta húsinu. Það liðu svo 10 dagar til viðbótar þar til Trump afhenti loks bréfið.

mbl.is