Reyndi að láta fjarlægja Mueller

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, mun hafa reynt að koma Robert Mueller …
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, mun hafa reynt að koma Robert Mueller úr stóli sérstaks saksóknara í rannsókn á tengslum Rússa við forsetakosningarnar árið 2016. AFP

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, reyndi að láta fjarlægja Robert Mueller, sérstakan saksóknara, úr embætti sínu sem yfirmaður rannsóknar á rússneskum afskiptum af forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu Mueller sem opinberuð var í dag. 

Tilraunir Trump í þessa veru gerði hann í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um að forsetinn lægi undir grun um að hafa staðið í vegi réttvísinnar. 

Vísaði til Watergate í tengslum við skipun Trump

Í skýrslunni segir að 17. júní árið 2017 hafi Trump hringt í Don McGahn, lögmann Hvíta hússins og „skipað honum að hringja í starfandi dómsmálaráðherra og tilkynna honum að sérstakur saksóknari ætti í hagsmunaárekstri í málinu og að hann þyrfti að fjarlægja.“

„McGahn framfylgdi ekki skipuninni og ákvað um leið að segja af sér frekar en að taka þátt í því sem hann kallaði mögulegt Laugardagsblóðbað (e. Saturday Night Massacre),“ segir í skýrslunni, en með þessu vísaði McGahn til tilrauna Richard Nixon, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, til þess að spilla fyrir rannsókn á Watergate-hneykslinu árið 1973.

„Þetta eru endalokin“

Í skýrslunni er einnig sagt líklegt að Trump hafi rekið James Comey fyrrverandi forstjóra FBI fyrir að neita að hreinsa nafni sitt.

Þá kemur fram í minnispunktum Jeff Sessions fyrrverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins að forsetinn hafi bölvað er hann frétti að hefja ætti rannsókn á málinu. „Guð minn góður,“ á hann a hafa sagt. „Þetta er hræðilegt. Þetta eru endalok forsetatíðar minnar.“

Rannsakendur eru enn fremur sagðir hafa verið þeirrar skoðunar að skrifleg svör sem lögfræðingar Trump sendu við spurningum Muellers, væru „ófullnægjandi“. Þeir hefðu hins vegar ákveðið að taka málið ekki lengra og hætta þannig á langvinna lagadeilu til að fá forsetann í vitnaleiðslu. 

Mu­ell­er seg­i í skýrslunni að hann hafi ekki getað ályktað að Don­ald Trump, Banda­ríkja­for­seti, sé sak­laus af ásök­un­um um að hafa hindrað fram­gang rétt­vís­inn­ar. „Ef við hefðum nægi­lega sterk­an grunn eft­ir ít­ar­lega rann­sókn á staðreynd­um máls­ins um að for­set­inn hefði ekki staðið í vegi rétt­vís­inn­ar, þá mynd­um við full­yrða það,“ seg­ir í skýrsl­unni. Eru þar talin upp 11 dæmi sem mögulega mætti telja að forsetinn eða starfsmenn framboðs hans hefðu möglega átt þátt í að hindra framgang réttvísinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert