Stál í stál eftir skýrslu Mueller

Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að það hafi verið í …
Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að það hafi verið í valdi dómsmálaráðuneytisins að álykta um sekt eða sýknu forsetans. AFP

Óhætt er að segja að málflutningur Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi vakið blendin viðbrögð í Bandaríkjunum, en hann kynnti efni Mueller-skýrslunnar svonefndu. Barr sagði að minnst væri tíu atvik tengd Donald Trump, Bandaríkjaforseta, þar sem grunur hefði leikið á um að hann hefði hindrað framgang réttvísinnar, en ekki er vitað hvaða atvik er um að ræða nákvæmlega.

Barr sagði að skýrslan sýndi fram á að Trump hefði ekkert óeðlilegt samráð átt við Rússa í tengslum við afskipti þeirra af bandarísku forsetakosningunum 2016. Sagði hann forsetann hafa sýnt mikinn samstarfsvilja við rannsókn málsins. 

Dómsmálaráðherrans að komast að niðurstöðu

Blaðamenn spurðu Barr út í þá afstöðu dómsmálaráðherrans að forsetinn hefði ekki brotið af sér, í ljósi þess að í úrdrætti úr skýrslunni sem nýverið var kynnt, hefði ekki verið tekinn afstaða til þess hvort forsetinn hefði hindrað framgang réttvísinnar eða ekki. Barr sagði að það væri hlutverk sitt og Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, að komast að niðurstöðu um sekt eða sýknu. 

„Það er á okkar ábyrgð og þess vegna höfum við þau tól sem við höfum. Við förum ekki í gegnum þetta ferli [rannsóknina] til þess að safna upplýsingum og birta þær einfaldlega. Við söfnum þeim til að komast að niðurstöðu. Í ljósi þess að sérstakur saksóknari komst ekki að niðurstöðu fannst okkur við þurfa að gera það,“ sagði Barr.

Repúblikanar fagna og segja forsetann saklausan

Repúblikanar hafa stokkið til og fagnað eftir blaðamannafund dómsmálaráðherrans. Þeir segja að nú liggi ljóst fyrir að forsetinn sé saklaus af öllum ásökunum um að hafa aðstoðað Rússa með nokkrum hætti. 

Boða Mueller á fund hjá þingnefnd

Demókratar hafa sakað Bill Barr um að hafa hagrætt niðurstöðum um forsetann og treysta honum ekki. Jerry Nadler, fulltrúadeildarþingmaður demókrata, hefur sent Robert Mueller, sérstökum saksóknara, fundarboð þar sem nærveru hans er óskað hjá dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Nadler er formaður nefndarinnar. „Við getum ekki reitt okkur á orð Barr ein. Við þurfum að lesa alla Mueller-skýrsluna og skoða þau sönnunargögn sem hún byggir á,“ sagði hann. 

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur einnig tjáð sig um málið á Twitter. Hún segir að Barr dómsmálaráðherra hafi skýrlega komið í ljós hvernig stjórn Trump reyni að hafa áhrif á skoðun almennings á Mueller-skýrslunni og að fulltrúar Trump hafi fengið að sjá skýrsluna áður en hún var opinberuð. „Það er nú meira áríðandi en áður að Mueller komi fyrir þingið og gefi vitnisburð,“ sagði hún.mbl.is

Bloggað um fréttina