Blaðakona skotin til bana í óeirðum í Londonderry

Frá óeirðunum í Londonderry í gærkvöldi sem lögreglan rannsakar sem ...
Frá óeirðunum í Londonderry í gærkvöldi sem lögreglan rannsakar sem hryðjuverk. Skjáskot/BBC

Blaðakona var skotinn til bana í óeirðum á Londonderry á Norður-Írlandi í gærkvöldi. Lögregla rannsakar morðið á Lyra McKee, 29 ára, og óeirðirnar sjálfar sem hryðjuverk.

Mark Hamilton, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við BBC að líklega stæðu „hinir nýju IRA“ á bak við óeirðirnar. Yfir 50 bensínsprengjum var meðal annars kastað að lögreglubílum og voru nokkrir bílar í ljósum logum þegar hleypt var af skotum.

McKee var flutt á sjúkrahús í lögreglubíl þar sem hún lést af sárum sínum skömmu síðar. Önnu blaðakona, Leona O´Neill, stóð við hliðina á McKee þegar hún var skotin og segir hana hafa fallið í götuna við hlið lögreglujeppa. „Hún var bara 29 ára. Mig hryllir við atburðum kvöldsins,“ skrifar O´neill á Twitter.

Óeirðir eru ekki óalgengar á Norður-Írlandi í aðdraganda páskanna, þegar írskir þjóðernissinnar minnast páskauppreisnarinnar 1916. Óeirðirnar í gær brutust út í Creggan-hverfi eftir að fjölmennt lið lögreglu réðist inn á heimili í hverfinu til að framkvæma húsleit.

„Ofbeldisfullir lýðveldissinnar eru að skipuleggja árásir í borginni og leit stendur yfir í Creggan-hverfinu,“ segir Hamilton. Talsmenn beggja fylkinga, þ.e. lýðveldis- og sambandssinnar, hafa fordæmt morðið á McKee.


mbl.is