Jarðarlag með milljónir áhorfa

Skjáskot/Youtube

Ariana Grande, Justin Bieber, Snoop Dog og Rita Ora eru á meðal þeirra 30 heimsþekktu tónlistarmanna sem taka þátt í lagi sem ætlað er að vekja athygli á neikvæðri þróun í umhverfismálum. Grínistinn og rapparinn Lil Dicky stendur að gerð lagsins sem skapað var í tilefni Jarðardagsins sem er á mánudaginn.

The Guardian greinir frá því að Lil Dicky segir hugmyndina að laginu hafa byrjað sem lélegan brandara en nú sé lagið líklega það mikilvægasta sem hann hafi gert á ævinni. Lagið heitir einfaldlega „Earth“ eða „Jörð“.

Við verðum að bjarga þessari plánetu

Lil Dicky ávarpar Justin Bieber í laginu og segir : „Veistu hvað, Bieber? Við gætum dáið. Ég ætla ekki að ljúga að þér. Ég meina, það eru svo margir þarna úti sem trúa ekki á hlýnun jarðar. Vissirðu það? Við verðum að bjarga þessari plánetu. Við erum að haga okkur heimskulega.“ Ariana Grande grípur þá inn í: „Nema við grípum til aðgerða, núna strax.“

Hluti ágóðans af laginu mun renna til sjóðs Leonardo DiCaprio sem starfar í þágu umhverfismála en leikarinn Leonardo DiCaprio kemur sjálfur fram í myndbandinu sem er teiknimyndafígúra en tónlistarmyndbandið er að stærstum hluta teiknimynd.

Lagið fór í loftið snemma í dag og hefur þegar þetta er skrifað fengið rúmlega 6,5 milljónir áhorfa.

mbl.is