Þyrla hífði hest úr vök

Finnskog Lux átti bókstaflega í vök að verjast í morgun …
Finnskog Lux átti bókstaflega í vök að verjast í morgun en áhöfn sjúkraþyrlunnar greip til örþrifaráða og hífði keppnishestinn upp úr vökinni eftir að lögregla og slökkvilið höfðu reynt að bjarga honum í heila klukkustund. Ljósmynd/Norska lögreglan

Hesturinn Finnskog Lux er við góða heilsu á dýraspítala í Hedmark í Noregi eftir að hafa staðið nánast við dauðans dyr snemma í morgun. Það var á áttunda tímanum að staðartíma sem eigandi Lux, Heikki Kulblik, ferðaðist á hestvagni sínum um ísilagt stöðuvatnið Røgden sem liggur innan marka sveitarfélagsins Grue í Hedmark.

Þegar Kulblik og Lux voru staddir um 150 metra frá landi brast ísinn skyndilega og hesturinn féll niður í vökina sem myndaðist.

„Einhverjir myndu segja að það væri fullseint [á árinu] að vera úti á ísnum núna en ég var hérna á miðvikudaginn líka og þá var hann vel heldur. Ég mældi þykkt hans 60 sentimetra í lok síðustu viku,“ sagði Kulblik í samtali við hestaíþróttasíðuna Trav og Galopp-nytt í morgun en hann er kunnur keppnismaður í kappakstri á hestvagni, vinsælli íþrótt í Noregi þar sem áhorfendur mæta á brautina og reyna að veðja á réttan hest.

Illa gekk að ná Lux úr vökinni og var líkamshiti …
Illa gekk að ná Lux úr vökinni og var líkamshiti hans kominn niður í 33 gráður eftir klukkustund í ísköldu Røgden-vatninu. Ljósmynd/Norska lögreglan

Fjöldi norskra fjölmiðla greinir frá björgun Lux úr vökinni en eftir að lögregla var komin á staðinn gekk hægt að bjarga dýrinu upp. „Þetta stóð tæpt, ég þurfti allan tímann að ríghalda í vagninn til að forða því að hann færi ofan í líka,“ greindi Kulblik frá.

Sjúkraþyrla til bjargar á elleftu stundu

Lux var heila klukkustund í ísköldu vatninu og mældist líkamshiti hans 33 gráður þegar hann komst undir læknishendur en eðlilegur líkamshiti fullorðins hross er 37 til 38 gráður.

Sjúkraþyrla frá Norsk luftambulanse var komin á staðinn og þegar hvorki gekk né rak hjá lögreglu og slökkviliði að draga Lux upp úr vökinni ákvað áhöfn þyrlunnar að reyna nokkuð sem hún hafði aldrei reynt áður.

Ólum var komið undir Lux með erfiðismunum og þær svo tengdar við þyrluna. Flugstjórinn hækkaði svo flugið og dró ískaldan hestinn upp úr vökinni sem án minnsta vafa varð dýrinu til lífs. 

„Þetta var býsna krefjandi starf, sagði Per Ivar Bekk, vettvangsstjóri slökkviliðsins, í samtali við vefsíðu Glåmdalen sem er læst öðrum en áskrifendum en norska ríkisútvarpið NRK vitnar í viðtalið. „Margar klukkustundir hefði tekið að rjúfa ísinn frá landi og koma hestinum þannig á land.“

Lux er sem fyrr segir allur að koma til. Hann var bókaður til keppni á Bjerke-hlaupabrautinni í Ósló á miðvikudaginn í næstu viku en verður í veikindafríi.

Finnskog Lux og knapi hans, Heikki Kulblik, í aksturskeppni. Kappakstur …
Finnskog Lux og knapi hans, Heikki Kulblik, í aksturskeppni. Kappakstur á hestvögnum er vinsæl íþrótt í Noregi og veðja áhorfendur á úrslitin. Ljósmynd/Hesteguiden.com

Aftenposten

Dagbladet

VG

mbl.is