20 ár frá skotárásinni sem breytti öllu

20 ár eru liðin frá skotárásinni í Columbine-menntaskólanum, árás sem …
20 ár eru liðin frá skotárásinni í Columbine-menntaskólanum, árás sem varð að eins konar samnefnara fyrir allar skotárásir í Bandaríkjunum sem komu í kjölfarið. AFP

Á þessum degi, klukkan 11:19, fyrir 20 árum réðust Eric Harris, 18 ára, og Dyl­an Kle­bold, 17 ára, nemendur á lokaári við Col­umb­ine-mennta­skól­an­n í Littlet­on, Col­orado, inn í skólann og myrtu tólf skóla­fé­laga sína og einn kenn­ara. 26 særðust. Þeir tóku svo eig­in líf á bóka­safni skól­ans. Það er hlutverk John McDonald að sjá til þess að skotárás muni aldrei aftur eiga sér stað í skólanum, eða nokkrum öðrum skóla í Colorado. 

McDonald er yfirmaður öryggismála í skólum í Jefferson-sýslu í Colorado. Hann ber ábyrgð á öryggi 85 þúsund nemenda í 157 skólum í sýslunni. McDonald er lögreglumaður en tók við starfinu fyrir ellefu árum þegar einkadóttir hans hóf nám við Columbine-menntaskólann. Blaðamaður The Washington Post fékk að fylgja honum eftir í einn dag. Morgunmatur McDonald, Diet 7Up, rennur ljúflega niður áður en hann fer í einkennisbúninginn og kemur skammbyssunni fyrir í beltinu. Hann er nýmættur á fyrsta fund dagsins þegar síminn hringir: Fyrsta tilkynning um mögulega skotárás í skóla í sýslunni.

Símtalið kom frá yfirmanni öryggismála í menntaskóla í sýslunni, en grunur lék á að einhver ætlaði að skjóta á nemendur út um glugga í skólanum. Þegar í stað tók viðbragðsáætlun gildi, áætlun sem McDonald stendur á bak við. Fleiri lögreglumenn voru kallaðir út, leitarhópar voru virkjaðir á skólalóðinni og tekin voru viðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur uns fulltryggt var að einungis var um orðróm að ræða.

Ef það er eitthvað sem hann hefur lært á þessum rúma áratug er það að hver einasta hótun eða ógn skiptir máli, líka þær óljósu og óstaðbundnu. Þrjár tilkynningar um „trúverðuglegar ógnir“ bárust McDonald daginn sem blaðamaður fylgdi honum eftir. En meira um McDonald síðar. 

Samnefnari yfir skotárásir í bandarískum skólum

Columbine, Virginia Tech, Sandy Hook, Parkland. Allt eru þetta skólar þar sem mannskæðar skotárásir hafa átt sér stað. 

Skotárásin í Columbine var ekki fyrsta mannskæða skotárásin sem gerð var í skóla í Bandaríkjunum en nafn skólans hefur orðið að samnefnara fyrir allar skotárásir í bandarískum skólum í kjölfarið. Af hverju? Jú, árásin átti sér stað í upphafi stafrænu aldarinnar (e. Digital age) þar sem upplýsingar flæddu nánast óhindrað um netið og fjölmiðlar fjölluðu um árásina á meðan hún átti sér stað og sjá mátti í beinni útsendingu þegar lögreglan togaði nemendur út um glugga skólans til að bjarga þeim.

Skotárásin var sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna á þeim tíma og var hún þaulskipulögð af Eric og Dylan sem eyddu mörgum mánuðum í að útfæra hana. Vopnaðir tveimur haglabyssum, skammbyssu, riffli og heimatilbúnum sprengjum réðust þeir til atlögu. Stærstu sprengjunni komu þeir fyrir í matsal skólans en auk þess komu þeir fyrir bílsprengjum á bílastæði skólans, líklega í þeim tilgangi að tefja fyrir viðbragðsaðilum sem komu fyrstir á vettvang. Á tuttugu mínútum drápu þeir 12 nemendur og einn kennara.

Upp­taka úr ör­ygg­is­mynda­vél Col­umb­ine- mennta­skól­ans þar sem sjá má árásarmennina …
Upp­taka úr ör­ygg­is­mynda­vél Col­umb­ine- mennta­skól­ans þar sem sjá má árásarmennina á bókasafni skólans þar sem mesta blóðbaðið átti sér stað. Ljósmynd/Wikipedia

Lögreglan var gagnrýnd fyrir að bregðast ekki nægilega fljótt við og leyfa árásarmönnunum að ganga lausum og skjóta á nemendur og starfsfólk skólans. Í kjölfar árásarinnar var svokallað IARD-úrræði (e. Immediate Action Radip Deployment) tekið í gagnið þar sem lögregla fylgir ákveðnu verklagi þegar árásármaður er líklegri til að drepa fórnarlömb sín frekar en að taka í gíslingu.

21. apríl 1999: Nemendur við Columbine-menntaskólann syrgja samnemendur sína og …
21. apríl 1999: Nemendur við Columbine-menntaskólann syrgja samnemendur sína og kennara sem létust í skotárásinni. AFP

„Drepa fólk“

Fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um árásina og kepptust við að veita sem mestar upplýsingar um árásarmennina, sem fyrst. Fljótlega var sagt frá því að árásarmennirnir væru einfarar sem voru lagðir í einelti af nemendum sem stunduðu íþróttir við skólann og nutu vinsælda (e. jocks) og væru að hefna sín með því að drepa „vinsælu“ krakkana í skólanum og áttu þeir að hafa miðað sérstaklega á nemendur sem klæddust íþróttafötum merktum skólanum. Lýsingarnar voru að mestu leyti byggðar á frásögnum vitna, nemenda við skólann, og var árásarmönnunum meðal annars lýst sem „hættulega skrítnum.“

21. apríl 1999: Lögreglumenn undirbúa sig fyrir sprengjuleit á skólasvæðinu. …
21. apríl 1999: Lögreglumenn undirbúa sig fyrir sprengjuleit á skólasvæðinu. Árásarmennirnir, tveir nemendur á lokaári við skólann, réðust inn í skólann vopnaðir byssum og heimatilbúnum sprengjum. Stærstu sprengjunni komu þeir fyrir í matsal skólans en auk þess komu þeir fyrir bílsprengjum á bílastæði skólans. AFP

John Savage, skólafélagi og vinur árásarmannanna, segir að af þeim hafi hins vegar aldrei stafað hætta og að árásin hafi komið öllum í opna skjöldu. „Við vorum tölvunörd og borðspilsnörd sem sátum og spiluðum Dungeons and Dragons, sem er örugglega það síst hættulega sem hægt var að gera,“ lýsti Savage, í viðtali við New York Times fyrir fjórum árum. Savage var á meðal nemenda sem voru á bókasafninu þar sem mesta blóðbaðið fór fram. „Eric var hægra megin við mig og Dylan stóð fyrir ofan mig, til vinstri. Ég leit upp og sagði: „Hæ Dylan.“ Hann sagði: „Hæ gaur.“ Ég spurði: „Hvað ertu að gera?“ Ég fæ enn þá hroll þegar ég hugsa til þess hvað hann rólegur þegar hann svaraði: „Drepa fólk.“ Frásögn Savage og fleiri nemenda sem lifðu árásina af, auk skólastjóra Columbine á þessum tíma, Frank DeAngelis, má sjá í heild sinni hér:

Móðir Dylans berst fyrir vitundarvakningu um geðheilbrigði

Þegar fjölmiðlaumfjöllun og rannsóknir sem gerðar hafa verið á umfjallanir um árásina má sjá að ástæðan fyrir því að Columbine skotárásin varð svona áhrifamikil er þríþætt. Í fyrsta lagi má nefna myndbönd sem árásarmennirnir tóku upp sem sýndu hvernig þeir skipulögðu árásina. Myndböndin urðu eins konar uppskrift fyrir komandi skotárásarmenn. Í öðru lagi var árásin hvatning fyrir aðra árásarmenn að koma fram hefndum gegn þeim sem höfðu komið illa fram við þá. Í þriðja lagi varð Columbine-árásin goðsagnakennd í augum fjölda ungmenna sem voru félagslega einangruð í skólum.

Ljóst er að Eric og Dylan áttu við andleg veikindi að stríða en fengu ekki þá aðstoð sem þeir þurftu á að halda. Enginn virtist meðvitaður um andlega erfiðleika þeirra og hefur móðir Dylans tekist á við áfallið sem því fylgir að eiga son sem framdi voðaverk líkt og árásina í Columbine með því að berjast fyrir vitundarvakningu um geðheilbrigðismál, líkt og sjá má í þessum aðdáunarverða Ted-fyrirlestri þar sem hún lýsir því hvernig er að vera móðir árásarmanns. Sjálf hefur hún glímt við andleg veikindi síðustu 20 ár.

Ein skotárás í skóla að meðaltali í mánuði

Líkt og fram hefur komið hafði árásin í Columbine-menntaskólanum áhrif á aðra byssumenn, það er staðreynd. Árásarmennirnir í Virgina Tech-háskólanum 2007 og í Sandy Hook-grunnskólanum 2012 hafa til að mynda viðurkennt að hafa verið undir áhrifum frá Eric og Dylan.

Í mánuðinum eftir skotárásina var tilkynnt um í kringum 400 atvik í bandarískum skólum þar sem ungmenni hótuðu að sprengja upp skóla eða voru klædd í eins föt og árásarmennirnir, svarta rykfrakka.

21. apríl 1999: Nemendurnir Rhianna Cheek, Mandi Annibel og Rachel …
21. apríl 1999: Nemendurnir Rhianna Cheek, Mandi Annibel og Rachel Roof syrgja samnendur sína og kennara sem létu lífið í skotárásinni daginn áður. AFP

En víkjum þá sögunni aftur að McDonald, sem ber ábyrgð á öryggi 85 þúsund nemenda í 157 skólum í Jefferson-sýslunni. Hann hefur unnið ötult starf og tekist að koma í veg fyrir aðra skotárás í Columbine-menntaskólanum, og fjölmörgum öðrum skólum í sýslunni, en staðreyndin er hins vegar sú að á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá árásinni hafa yfir 226 þúsund nemendur við bandaríska skóla upplifað byssuofbeldi eða skotárás af einhverju tagi. Framdar hafa verið skotárásir í 233 skólum í Bandaríkjunum á síðustu 20 árum. Það er að meðaltali ein skotárás í mánuði. 143 hafa látist í þessum árásum og 294 særst.

Á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá árásinni í …
Á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá árásinni í Columbine hafa yfir 226 þúsund nemendur við bandaríska skóla upplifað byssuofbeldi eða skotárás af einhverju tagi. Einn punktur táknar tíu nemendur sem hafa upplifað byssuofbeldi á skólatíma. Grafík/mbl.is/Byggt á Washington Post

Krafan um herta byssulöggjöf sífellt háværari

Umræðan um byssuofbeldi og byssulöggjöf hefur hins vegar orðið umfangsmeiri eftir því sem fram líða stundir, ekki síst eftir skotárárásina í Parkland þegar nemendur við skólann stofnuðu hreyfingu undir yfirskriftinni „March for our lives“ sem krefst hertrar byssulöggjafar. 

Staðreyndin er hins vegar sú að nemendur í bandarískum skólum og aðstandendur þeirra búa við þann veruleika í dag að von er á fréttum af nýrri skotárás á hverri stundu. Að minnsta kosti enn um sinn, á meðan byssulöggjöfin stendur óhögguð, auk fleiri þátta sem spila inn í.

Umfjöllunin er byggð á fréttum AFP, CNN, The New York Times og umfjöllun The Washington Post hér, hér og hér.

mbl.is