Býflugur lifðu af eldsvoðann

Býflugnabúin voru staðsett í skrúðhúsi um 30 metrum undir þaki …
Býflugnabúin voru staðsett í skrúðhúsi um 30 metrum undir þaki kirkjunnar og urðu eldinum því ekki að bráð. AFP

Smæstu íbúar Notre Dame-dómkirkjunnar lifðu af eldsvoðann sem braust út síðasta mánudag og eyðilagði þak kirkjunnar og hæsta turn hennar. Býflugurnar 200 þúsund sem héldu til í þremur býflugnabúum í þaki kirkjunnar voru taldar af.

Samkvæmt Nicolas Géant, býflugnabóndanum sem hefur umsjón með býflugum kirkjunnar, segir þær hins vegar á lífi og við góða heilsu, en býflugnabúunum þremur var komið fyrir í þaki Notre Dame árið 2013 í tilraun til þess að fjölga býflugum í borginni.

BBC greinir frá því að býflugnabúin hafi verið staðsett í skrúðhúsi um 30 metrum undir þaki kirkjunnar og urðu eldinum því ekki að bráð, en evrópskar býflugur eru ólíkar öðrum tegundum að því leyti að þær halda hópinn í býflugnabúinu þegar þær skynja hættu og vernda drottningu sína. 

Býflugunum stafaði hvað mest hætta af hitanum sem myndaðist í eldsvoðanum, en reykurinn hefði aðeins haft þau áhrif að flugurnar yrðu ölvaðar og myndu sofna, að sögn Géant. Býflugnabóndar nota gjarnan reyk til þess að deyfa býflugurnar.

Géant segist hafa verið himinlifandi þegar hann komst að því að býflugurnar hefðu lifað af. „Þetta er kraftaverk!“

mbl.is