Handteknir vegna dauða McKee

Þessi mynd var tekin af Lyru McKee fyrir tveimur árum.
Þessi mynd var tekin af Lyru McKee fyrir tveimur árum. AFP

Tveir ungir menn hafa verið handteknir vegna dauða blaðakonunnar Lyru McKee. Þeir hafa verið færðir til yfirheyrslu í Belfast, höfuðborg Norður-Írlands. 

Bresku hryðjuverkalögunum var beitt við handtöku mannanna, sem eru 18 og 19 ára, að sögn BBC.

McKee, sem var 29 ára, var skotin til bana þegar hún fylgdist með óeirðum á Norður-Írlandi á fimmtudagskvöld.

Lögreglan að störfum á vettvangi.
Lögreglan að störfum á vettvangi. AFP

Að sögn norðurírsku lögreglunnar skaut byssumaðurinn í átt að lögreglumönnum og stóð McKee skammt frá lögreglubíl þegar hún varð fyrir skotinu. Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél. Maðurinn sem er grunaður um að hafa skotið hana sást í myndskeiði sem var tekið upp á farsíma. 

Jason Murphy, sem stjórnar rannsókn málsins, segir að dauði hennar hafi verið „tilhæfulaus og algjörlega skelfilegur“.

Sara Canning hélt tilfinningaþrungna ræðu við minningarathöfnina.
Sara Canning hélt tilfinningaþrungna ræðu við minningarathöfnina. AFP

Minningarathöfn í bænum Derry 

Minningarathöfn var haldin í borginni Derry í gær þar sem Sara Canning, kona McKee, lýsti henni sem miklum aðgerðarsinna sem barðist ötullega fyrir réttindum hinsegin fólks.

Canning sagði að draumar Mckee hafi verið „þurrkaðir út með villimannslegu athæfi“ og að hún sjálf hefði misst „konuna sem ég ætlaði að eldast með“.

AFP

„Vegna hins tilgangslausa morðs á Lyru McKee hefur fjölskylda hennar misst ástkæra dóttur sína, systur og frænku. Margir hafa einnig misst trúnaðarvinkonu sína,“ sagði hún. „Við erum öll fátækari við fráfall Lyru.“

Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Fein, og Arlene Foster, leiðtogi DUP, voru á meðal þeirra sem sóttu minningarathöfnina.




Blómsveigar hafa verið lagðir á götuna til minningar um blaðakonuna.
Blómsveigar hafa verið lagðir á götuna til minningar um blaðakonuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert