Myrti eiginmanninn fyrir tveimur árum

AFP

Eiginkona manns sem var leiðtogi samtakanna Ku Klux Klan í Missouri í Bandaríkjunum skaut hann til bana fyrir tveimur árum. Konan hefur játað að hafa orðið eiginmanni sínum að bana. 

Konan, Malissa Ancona, hefur verið dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir manndráp og önnur afbrot. 

Ancona, sem er 47 ára gömul, hélt því upphaflega fram að sonur hennar, Paul Jinkerson, hefði myrt manninn. Hún dró það til baka í réttarsal í gær. Sonurinn hefur einnig verið ákærður en það á eftir að rétta í máli hans, að því er segir í frétt á vef BBC.  

Frank Ancona, sem var 51 árs, var skotinn til bana í svefnherbergi á heimili sínu í Leadwood í febrúar 2017 og var líkinu síðan komið fyrir við á í bænum Belgrade sem er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Leadwood.

Malissa Ancona komst að samkomulagi við saksóknara í málinu og játaði í framhaldinu sök. 

„Ég skaut tveimur skotum sem urðu eiginmanni mínum að bana,“ sagði Ancona í réttarsalnum. Hún viðurkenndi ennfremur að hafa þrifið veggi svefnherbergisins og hafa fjarlægt rúmfatnað áður en hún losaði sig við líkið.

Í framhaldinu tilkynnti hún til lögreglu að mannsins væri saknað, auk þess sem hún birti færslu á Facebook þar sem húnn óskaði eftir því að hann kæmi aftur heim. Fram kemur í dómskjölum að hann hefði farið fram á skilnað. 

Ancona hélt því fram í fyrstu að Jinkerson hefði skotið manninn og samþykkti að vitna gegn syni sínum. 

Frank Ancona var liðsmaður Íhaldssamra bandarískra riddara Ku Klux Klan, en samtökin segjast vera samtök hvítra, kristinna föðurlandsvina sem eigi rætur að rekja til starfsemi Ku Klux Klan á fyrri hluta 20. aldar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert