„Hélt við hefðum sagt skilið við ofbeldið“

„Við vorum á leið í kirkju, en allri guðsþjónustu hefur …
„Við vorum á leið í kirkju, en allri guðsþjónustu hefur verið aflýst í landinu vegna árásanna.“ AFP

„Við vorum sofandi inni á herbergi þegar við heyrðum háværa sprengingu sem við fundum fyrir alla leið upp á herbergi,“ segir Julian Emmanuel, breskur ríkisborgari sem ólst upp í Sri Lanka og er þar staddur í höfuðborginni til að heimsækja ættingja sína.

Hann gisti á Cinnamon Grand Hotel, en ein sprengjuárásanna var framin á veitingastað hótelsins í morgun. 

Yfir 200 eru látnir og 450 slasaðir eftir átta árásir. Átta hafa verið handteknir, en margar árásanna voru sjálfsvígsárásir. Ekki liggur fyrir hvaða hópur eða samtök standa að baki árásunum.

„Við vorum drifin niður í anddyri hótelsins og við beðin að fara út baka til. Þaðan sáum flutninga slasaðra og látinna á sjúkrahús,“ segir Emmanuel í samtali við fréttastofu BBC, en samkvæmt Guardian eru fimm breskir ríkisborgarar meðal hinna látnu.

Allri guðsþjónustu aflýst vegna árásanna

„Við vorum á leið í kirkju, ég, mamma og frændi minn, en allri guðsþjónustu hefur verið aflýst í landinu vegna árásanna,“ útskýrir Emmanuel, en hryðjuverkaárásunum var sérstaklega beint gegn kirkjum og hótelum.

Árásirnar beindust gegn kirkjum og hótelum.
Árásirnar beindust gegn kirkjum og hótelum. AFP

Emmanuel var búsettur í Sri Lanka fram til átján ára aldurs og kveðst því hafa séð sinn skerf af átökum á milli mismunandi hópa íbúa landsins, en árið 2009 var samið um frið við Tamíl-þjóðflokkinn eftir áratugalanga borgarastyrjöld.

„Eiginkona mín og börn hafa aldrei séð neitt í líkingu við stríð. Þetta er mjög erfitt fyrir þau. Þetta er mjög sorglegt, ég hélt að Sri Lanka hefði sagt skilið við ofbeldið, en nú sé ég að það hefur snúið aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert