Margir vilja Farage sem leiðtoga

Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins.
Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins. AFP

Margir í hópi bæjarfulltrúa breska Íhaldsflokksins vilja Nigel Farage, leiðtoga Brexitflokksins í Bretlandi og fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, sem næsta leiðtoga flokksins. Aðeins Borist Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, nýtur meiri stuðnings.

Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem fyrirtækið Survation gerði á meðal bæjarfulltrúa Íhaldsflokksins og breska dagblaðið Daily Telegraph fjallar um á fréttavef sínum í dag. Ef Farage var ekki tekinn með í myndina sögðust um fjórðungur vilja að Johnson tæki við af Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins, 14% vilfu Michael Gove umhverfisráðherra, 12% Jeremy Hunt utanríkisráðherra og 12% Sajid Javid innanríkisráðherra.

Ef spurt var einnig um Farage breyttist myndin. Johnson mældist þá með 19%, Farage með 15% og Javid með 11%. Fram kemur í fréttinni að niðurstöðurnar muni líklega leiða til þess að þeir sem vilji taka við af May hugsi sinn gang í ljósi þess að almennir flokksmenn í Íhaldsflokknum muni eiga síðasta orðið um það hver verði fyrir valinu. Johnson með mestan stuðning og Farage næstmestan benti til þess að flokksmenn vildu leiðtoga sem væri raunverulega andvígur veru Bretlands í Evrópusambandinu.

Fleira kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunarinnar. Þannig sögðust 40% bæjarfulltrúa Íhaldsflokksins sem spurðir voru ætla að kjósa Brexitflokk Farages í Evrópuþingskosningunum sem fram fara 23. maí. Þá vildu 3/4 þeirra að May segði af sér vegna þess hvernig hún hefði haldið á viðræðum við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands og 43% sögðust vilja að hún segði af sér strax. Könnunin var gerð fyrir dagblaðið Mail On Sunday og náði til rúmlega eitt þúsund bæjarfulltrúa Íhaldsflokksins.

Þrýstingur hefur aukist á May að segja af sér og hafa almennir flokksmenn víða neitað að taka þátt í kosningabaráttu Íhaldsflokksins vena sveitarstjórnarkosninganna 2. maí og Evrópuþingskosninganna. Þá hafa frambjóðendur í fyrrnefndu kosningunum neitað að nefna May á nafn þegar þeir ganga í hús og ræða við kjósendur. Segja þeir að það setji allar samræður við kjósendur í uppnám þar sem nafn hennar sé tengt við svik.

Breska dagblaðið Sunday Times greinir frá því að May verði tilkynnt innan fárra daga að hún verði að fara frá fyrir lok júní eða standa frammi fyrir áframhaldandi tilraunum þingmanna Íhaldsflokksins til þess að koma henni frá. Graham Brady, formaður 1922-nefndar óbreyttra þingmanna flokksins muni tilkynna forsætisráðherranum að 70% þingmanna flokksins vilji nú að hún segir af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert