Taka ákvörðun um Trump innan fárra vikna

Adam Schiff.
Adam Schiff. AFP

Hátt settur þingmaður Demókrataflokksins í Bandaríkjunum segir að flokkurinn muni innan fárra vikna taka ákvörðun hvort það sé rétt skref fyrir bandarísku þjóðina að kæra Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir embættisafbrot.

Adam Schiff, sem stýrir leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar, segir að þar sem Repúblikanaflokkurinn stýri öldungadeildinni, og muni að öllum líkindum stöðva alla aðgerðir sem miði að því að koma Trump frá völdum, þá séu demókratar ákveðinni klemmu í kjölfar útgáfu rannsóknarskýrslu Robert Mueller. Þar kemur fram að engin bein tengsl hafi verið á milli rússneskra stjórnvalda og framboðs Trumps í forsetakosningunum 2016. Hins vegar voru nefnd 10 dæmi sem tengjast Trump þar sem mögulega hafi verið reynt að hindra framgang réttvísinnar. 

Schiff segir að nú þurfi demókratar á ákveða hvort það sé réttast að kæra forsetann fyrir embættisafbrot eða ekki. Verði það ekki gert þá sé flokkurinn að gefa til kynna að framganga Trumps væri í lagi. Þannig væru menn að setja fordæmi fyrir næstu forseta, að þeir „geti tekið þátt í svona spillingu án afleiðinga“.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Hann segir að sú leið sem verði valin muni hafa miklar afleiðingar en stefnt sé að því að ákveða þetta innan fárra vikna. 

Sumir hafa haldið því fram að ef Trump verði kærður fyrir afbrot í starfi þá muni hann fá tækifæri til að þjappa saman sínum helstu stuðningsmönnum og halda því fram að hann honum hafi verið veitt uppreisn æru og nú væru menn einfaldlega að áreita forsetann og koma illa fram við hann. Það þarf aðeins meirihluta þingmanna í neðri deild þingsins, þar sem demókratar eru í meirihluta, til að samþykkja það að kæra forsetann, en tveir þriðju hlutar þurfa að samþykkja þetta í efri deildinni eigi þetta að ná í gegn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert