Kortlögðu stríðsglæpina

Jon Snow og Daenerys Targaryen.
Jon Snow og Daenerys Targaryen.

Það hefur varla farið framhjá neinum að í vinsælustu sjónvarpsþáttum síðari tíma, Game of Thrones, fyrirfinnst mikið ofbeldi. Margir segja að slíkt sé óhjákvæmilegt þar sem söguþráðurinn snýst um stríð, stríð milli ætta og ríkja og að lokum dauðra og lifandi.

Ástralski Rauði krossinn gerði óvenjulega úttekt á þáttunum og kortlagði stríðsglæpi sem þar koma fyrir og hve marga og hvaða stríðsglæpi aðalpersónur þáttanna hefðu framið í fyrstu sjö seríunum. Eru glæpirnir þá miðaðir út frá alþjóðalögum okkar tíma en þeir sem greindu glæpina eru sérfræðingar í alþjóðlegum mannúðarlögum.

Alþjóðleg mannúðarlög miða að því að lina þjáningar fólks í stríði. Með undirritun Genfarsamninganna skuldbundu ríki heims sig til að takmarka stríðsrekstur á ýmsan hátt og hlífa þeim sem ekki taka beinan þátt í ófriðnum.

Lagasérfræðingarnir horfðu á hvern einasta þátt í fyrstu sjö seríunum af Game of Thrones, alls 67 þætti.

Þeir flokkuðu ofbeldisverknað í þáttunum sem stríðsglæpi ef ofbeldið átti sér stað í vopnuðum bardögum og að auki skrifuðu þeir hjá sér ofbeldisverknað utan bardaga ef það var yfirgengilegt. Þau atriði, utan vígvallar, voru þó ekki talin með þegar verstu stríðsglæpamennirnir voru reiknaðir út. Þannig lentu einir grimmustu karakterar þáttanna, mæðginin Cersei og Joffrey Lannister, ekki í efstu sætum stríðsglæpamanna vegna þess að þeirra brot voru framin utan vígvallar.

Verra í raunveruleikanum

Stríðsglæpir sem birtast í þáttunum eru meðal annars ómannúðleg meðferð, pyntingar, kynferðisofbeldi og að nýta börn sem hermenn. Alls skráðu sérfræðingarnir niður 103 stríðsglæpi. Tilgangurinn var ekki aðeins til gamans heldur til að vekja áhorfendur til vitundar um að standa þurfi vörð um alþjóðleg mannúðarlög og um leið að varpa ljósi í hve viðkvæmri og berskjaldaðri stöðu fólk er sem lendir í miðju vopnaðra átaka. Þannig má segja að skýrsla Rauða krossins sé ekki gagnrýni á þættina heldur nýta samtökin vinsældir þeirra til að fræða fólk um stríðsglæpi; að glæpirnir í Game of Thrones eigi sér raunverulega samsvörun við það sem er að gerast í nútímanum.

Þannig birtist grein á vefsíðu Amnesty International um miðja viku þar sem fjallað var um ofbeldið í Game of Thrones en mannréttindasamtökin voru með greininni að benda á hvernig raunveruleikinn væri samt enn verri í stríðum en þættirnir sýndu.

Allt frá því að fyrsta þáttaröð Game of Thrones fór í loftið árið 2011 hefur verið skrifað um ofbeldið í þáttunum og má segja að skrifin hafi verið stöðug í átta ár. Hefur sitt sýnst hverjum. Sjónarhornin eru þau að í þáttunum séu óþarfa ofbeldisatriði og þótt þættirnir séu bannaðir börnum hafi ofbeldisatriði líka áhrif á fullorðna. Aðrir segja ofbeldið nauðsynlegt því þættirnir fjalli um stríð og það væri ekki trúverðugt að fjalla um stríð án þess að sýna þessa hræðilegu glæpi. Þarna hafi fólk tækifæri til að átta sig á raunveruleika stríðs, sem þrátt fyrir dreka og tilbúna veröld endirspegli hvernig stríð virki.

Hvað sem þeirri deilu líður þá er forvitnilegt að skoða niðurstöður Rauða krossins og það kann að koma mörgum á óvart hverjir eru stærstu stríðsglæpamennirnir:

Ramsay Bolton er versti stríðsglæpamaður GOT. Alls er hann ábyrgur fyrir 17 stríðsglæpum, þar á meðal pyntingum, gíslatökum og nauðgun.

Daenerys Targaryen, drekamóðirin, er annar versti stríðsglæpamaðurinn, ábyrg fyrir alls 15 stríðsglæpum. Þar tengjast flestir glæpir hennar því að valda andstæðingum sínum „umframáverkum eða óþarfa þjáningu“ - og það með því að nýta dreka sína til að brenna fólk.

Roose Bolton, faðir Ramsay, er þriðji versti, ábyrgur fyrir átta stríðsglæpum, einkum tengdum pyntingum.

Jon Snow og Næturkonungurinn deila fjórða sæti - þeirra helsta sök er að nýta börn sem hermenn.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert