Takk fyrir að slátra ekki syni okkar!

Það kássuðust ekki margir upp á Tommy Smith á velli …
Það kássuðust ekki margir upp á Tommy Smith á velli enda var varnarmaðurinn með afbrigðum harður í horn að taka. The Independent

Honum brá í brún, skæðasta sóknarmanni gestaliðsins, þegar hann hljóp út á flötina á Anfield og beint í flasið á Tommy Smith, fyrirliða Liverpool, sem rétti honum samanbrotið bréfsnifsi. „Hvað er þetta?“ spurði aumingja sóknarmaðurinn hvumsa og starði á talnarununa sem handskrifuð hafði verið á snifsið. „Þetta er símanúmerið á borgarspítalanum hérna í Liverpool. Þú munt þurfa á því að halda,“ svaraði Smith að bragði áður en hann tók sér sperrtur stöðu fyrir miðju varnarinnar.

Þetta er ein af fjölmörgum mögnuðum sögum af Tommy Smith, einum harðasta naglanum í sögu ensku knattspyrnunnar, sem bar beinin fyrir rúmri viku eftir glímu við Alzheimer-sjúkdóminn.

„Ef hægt er að vinna leik fyrirfram, gerum það þá,“ var Smith vanur að segja en hann var alla tíð liðtækur í sálfræðihernaði sem hann nam við fótskör meistarans sjálfs, Bills Shanklys, hins sögufræga sparkstjóra Liverpool.

Kannski má segja að skrattinn hafi þar hitt ömmu sína. Þegar Smith kom fyrst á Anfield, rétt kynþroska, sagði Shankly honum að láta aldrei nokkurn mann vaða yfir sig. Í skjóli þeirrar speki mætti Smith ekkert löngu síðar á skrifstofuna hjá Shankly og mælti: „Hey gamli, hvenær fæ ég eiginlega að spila?“

Já, ungur nemur ...

Og Shankly kunni alla tíð að meta manninn sem hann gerði síðar að fyrirliða Liverpool. „Tommy fæddist ekki; hann var brotinn af bergi,“ sagði hann einhvern tíma af sinni alkunnu hnyttni. Það var ekki að ósekju að Smith var þekktur undir nafninu „The Anfield Iron“ eða Járni frá Anfield.

Flökkusagan segir að Smith hafi misst af úrslitaleiknum í Evrópukeppni meistaraliða vorið 1978 eftir að hann hnaut um öxi og meiddi sig á fæti. Sama saga hermir að hægt hafi verið að taka öxina í nefið eftir þau viðskipti.

Utan vallar sýndi Tommy Smith á sér allt aðra hlið; …
Utan vallar sýndi Tommy Smith á sér allt aðra hlið; var ljúfur fjölskyldumaður. Hér er hann ásamt eiginkonu sinni, Susanne, og heimilishundinum, Pape. Liverpool Echo

Þá er fullyrt að mæður í Liverpool hafi um árabil haft ljósmynd af Smith á arinhillunni á heimilinu – til að halda börnunum frá eldinum.

Já, orðsporið plægði sannarlega akurinn. Einhverju sinni var Smith að stíga upp úr meiðslum og var látinn leika með varaliði Liverpool gegn varaliði Preston North End á Anfield. Eftir leikinn gáfu ókunnug hjón sig auðmjúk á tal við hann á bílaplaninu við völlinn. „Hvað get ég gert fyrir ykkur?“ spurði Smith forvitinn. „Tja, okkur langaði bara að þakka þér fyrir að slátra ekki drengnum okkar!“ sögðu hjónin einum rómi en sonur þeirra var einmitt innherji í liði Preston. „Auðvitað hafði ég engin áform um að ganga milli bols og höfuðs á aumingja drengnum en þarna áttaði ég mig á því að orðsporið getur haft ótvírætt gildi. Það hafði ekki aðeins náð til drengsins, heldur einnig foreldra hans,“ sagði Smith löngu síðar.

Nánar er fjallað um Tommy Smith í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »