Fjölskylda á bak við hryðjuverkin

Alls er 321 látinn og yfir 500 særðir.
Alls er 321 látinn og yfir 500 særðir. AFP

Að minnsta kosti 45 börn létust í hryðjuverkaárásunum á Sri Lanka á páskadag. Alls létust 320 í sjálfsvígsárásum á kirkjur og lúxushótel að morgni páskadags. Um sjálfsvígsárásir var að ræða og meðal vígamannanna eru bræður sem eru synir auðjöfurs í Colombo.

Ríki íslams hefur lýst ábyrgð á árásunum en embættismaður á Sri Lanka greindi frá því í morgun að árásirnar hafi verið hefnd fyrir árásirnar í nýsjálensku borginni Christchurch í mars. Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, segir að engar leyniþjónustuskýrslur þar að lútandi hafi komið fram en rannsókn yfirvalda á Sri Lanka sé væntanlega á frumstigi. 50 múslimar létust í hryðjuverkaárásunum á tvær moskur í Christchurch.  

Samkvæmt upplýsingum frá UNICEF er óttast að fleiri börn eigi eftir að deyja þar sem nokkur börn eru í lífshættu eftir áverka sem þau hlutu í hryðjuverkunum á páskadag.

27 börn létust og 10 særðust í árásinni á St Sebastian's-kirkjuna í Negombo. Í árás á kirkju í borginni Batticaloa létust 13 börn, þar á meðal 18 mánaða gamalt barn. Öll þessi börn voru búsett á eyjunni en hið minnsta fimm útlend börn létust einnig í árásunum. 

Í yfirlýsingu frá áróðursskrifstofu Ríkis íslams, Amaq, kemur fram að hryðjuverkamennirnir hafi verið stríðsmenn Ríkis íslams. 

45 börn hið minnsta létust í árásunum.
45 börn hið minnsta létust í árásunum. AFP

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að bræðurnir hafi gert sjálfsvígsárásir á tveimur hótelum en faðir þeirra er sterkefnaður kryddkaupmaður. Bræðurnir frömdu ódæðin á Shangri-La- og Cinnamon Grand-hótelunum í höfuðborginni þegar gestir voru að snæða morgunverð. Báðir höfðu innritað sig á hótelin daginn áður. Nánast á sama tíma fóru þeir að morgunverðarhlaðborði hótelanna og sprengdu sig upp en þeir voru báðir með bakpoka hlaðna sprengiefnum á sér. Annar þeirra gaf upp falskt nafn en hinn gaf upp sitt rétta nafn og heimilisfang. Ekki hefur náðst í foreldra þeirra en þegar sérsveitarmenn komu á heimili fjölskyldunnar sprengdi eiginkona annars þeirra sig upp ásamt börnum þeirra. Telur lögregla að fjölskyldan hafi verið sérstök hryðjuverkasveit. Hún hafi haft nægt fé á milli handanna og verið öfgafull. Bræðurnir störfuðu báðir við fjölskyldufyrirtækið. Er nú rannsakað undir áhrifum hvaða öfgasamtaka þeir hafi verið. Allt bendi til þess að fjölskyldan hafi vitað hvað þeir hafi ætlað sér að gera og að þeir hafi verið innblásnir af erlendum vígasamtökum. En hvort um bein tengsl sé að ræða er ekki vitað með vissu.

Flaggað er í hálfa stöng við Kristjánsborgarhöll en þrjú dönsk …
Flaggað er í hálfa stöng við Kristjánsborgarhöll en þrjú dönsk systkini létust í árásunum. AFP

Þriðja tilræðið var gert á veitingastað á Kingsbury-hótelinu. 

Til stóð að gera árás á fjórða hótelinu en sú árás mistókst. Tilræðismaðurinn hafði innritað sig á hótelið daginn fyrir árásina og gefið upp heimilisfang sitt. Hann var á staðnum á sunnudagsmorgun en virkjaði ekki sprengjuna sem honum var ætlað að sprengja. Ekki er vitað hvort það hafi mistekist eða hann hætt við. Eftir sprenginguna á Shangri-la fylltist starfsfólk hótelsins grunsemdum og lét lögreglu vita af manninum. Tókst henni að rekja ferðir hans í úthverfi höfuðborgarinnar. Þar sprengdi hann sig upp og létust tveir vegfarendur. 

Shangri-La-hótelið í Colombo en annar bróðirinn sprengdi sig upp í …
Shangri-La-hótelið í Colombo en annar bróðirinn sprengdi sig upp í morgunverðarhlaðborði hótelsins á páskadag. AFP

Samkvæmt því sem sést á myndum úr öryggismyndavélum voru allir árásarmennirnir með stóra bakpoka hlaðna sprengiefni. Af þeim 321 sem staðfest er að hafi látist eru 39 útlendingar. Yfir 500 særðust í árásunum. 

Um 40 manns eru í haldi lögreglu í tengslum við árásirnar. Bræðurnir hafa ekki verið nafngreindir en þeir eru á þrítugsaldri og voru lykilmenn í íslamska öfgahópnum National Thowheeth Jama'ath (NTJ) sem stjórnvöld segja að beri ábyrgð á árásunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert