Játa morðið á McKee

Lyra McKee.
Lyra McKee. AFP

Nýi írski lýðveldisherinn (New IRA) hefur játað að bera ábyrgð á morðinu á blaðakonunni Lyru McKee, samkvæmt frétt í norðurírsku dagblaði. Í yfirlýsingu sem The Irish News birtir biðja samtökin fjölskyldu hennar og vini innilegrar afsökunar.

McKee, sem var 29 ára, var skotin í höfuðið á skírdagskvöld þar sem hún fylgdist með óeirðum í Cregg­an-hverfinu í Londonderry. Lögreglan segir að viðbrögðin við drápinu hafi verið gríðarleg og er rætt um hvernig hægt verði að verja þá sem urðu vitni að ofbeldinu og eru reiðubúnir til þess að bera vitni.

AFP

Yfirlýsing Nýja-IRA er birt í kjölfar þess að harðlínulýðveldisflokkurinn Saorad, sem nýtur stuðnings Nýja-IRA, reyndi að réttlæta ofbeldið á skírdag.

Í frétt BBC kemur fram að McKee hafi staðið rétt hjá jeppa lögreglunnar þegar hún var skotin til bana af grímuklæddum manni sem skaut á lögreglu og þá sem fylgdust með óeirðunum.

Vinir McKee komu saman fyrir utan skrifstofu Saorad í Derry í gær og mótmæltu. Meðal annars settu nokkrar konur rauða málningu með höndunum yfir slagorð lýðveldisflokksins fyrir utan skrifstofuna. Lögreglan fylgdist með aðgerðunum án þess að hafa afskipti af mótmælendum.

AFP

Nýja-IRA varð til á árunum 2011 og 2012 í kjölfar samruna nokkurra smærri hópa, þar á meðal Hins sanna írska lýðveld­is­hers (Real IRA).

Hinn sanni írski lýðveld­is­her (The Real IRA) bar ábyrgð á blóðbaðinu í Omagh árið 1998 sem kostaði 28 manns lífið. Sam­tök­in urðu til við klofn­ing innan IRA haustið 1997 þegar Sinn Fein tóku þátt í friðarsamkomulaginu. Nýja-IRA hefur tengst fjórum morðum, segir í frétt BBC.

Útför McKee verður haldin í St Anne's-kirkjunni í Belfast á morgun og segir sambýliskona hennar, Sara Canning, að þar verði lífi hennar fagnað.

Sara Canning sambýliskona Lyra McKee er meðal þeirra sem tóku …
Sara Canning sambýliskona Lyra McKee er meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælastöðunni í gær. AFP
mbl.is