Pútín og Kim hittast á leiðtogafundi

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittast á …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittast á leiðtogafundi í Rússlandi á fimmtudaginn kemur. Verður það í fyrsta skipti sem leiðtogarnir hittast augliti til auglitis. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittast á fundi í Rússlandi á fimmtudaginn kemur, sumardaginn fyrsta. „Sjónum verður beint að pólitískri og diplómatískri lausn á ágreiningi um kjarorkuvopn á Kóreuskaganum,“ sagði Yuri Ushakov, ráðgjafi rússnesku ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum, þegar tilkynnt var um fund leiðtoganna í dag, en þetta verður í fyrsta skipti sem Pútín og Kim hittast með formlegum hætti.

Fundurinn fer fram í Vladivostok í austurhluta landsins, að öllum líkindum á Russky-eyju við Kyrrahafið. Stjórnvöld í Moskvu tilkynntu í síðustu viku að leiðtogafundurinn væri fyrirhugaður í þessum mánuði.

Fundurinn verður fyrst og fremst umræðufundur, en ekki stendur til að leiðtogarnir undirriti sameiginlega yfirlýsingu eða samkomulag að fundi loknum, að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórnvöldum í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert