Starfsmenn bjuggu á barnum

Niðurstaða Vinnueftirlitsins var að níumenningarnir hefðu bókstaflega verið í lífshættu …
Niðurstaða Vinnueftirlitsins var að níumenningarnir hefðu bókstaflega verið í lífshættu miðað við aðbúnaðinn í íbúð þeirra á þriðju hæð barsins sem þeir störfuðu á. Ein eldavélarhella, yfirlímdur reykskynjari og óopnanlegir gluggar er bara hluti af upptalningu eftirlitsins. Ljósmynd/Norska Vinnueftirlitið (Arbeidstilsynet)

Þegar Vinnueftirlitið kom í ótilkynnta heimsókn á dönsku knæpuna The Old Irish Pub í Stavanger í Rogalandi í Noregi 7. mars komust fulltrúar þess á snoðir um fáheyrð brot staðarins sem rekinn er í hinum sögufrægu Røde sjøhusene þar í bænum.

Reyndust níu pólskir starfsmenn búa í sameiginlegu opnu rými á þriðju hæð hússins þar sem Vinnueftirlitið taldi þá beinlínis í lífshættu vegna aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggis húsnæðisins, eða öllu heldur skortsins á þeim atriðum.

Enginn starfsmannanna hafði sér svefnherbergi, segir í samantekt eftirlitsins, ekki var hægt að opna tvo af gluggum rýmisins, ein eldavélarhella var öll eldunaraðstaðan fyrir níu manns, rafmagnsofn var þakinn einhverju, sem ekki var gerð grein fyrir hvað var, fullir öskubakkar voru við hlið rúmanna og límt hafði verið yfir reykskynjara í loftinu. Að lokum hafði staðurinn uppi ólöglegar áfengisauglýsingar á barnum.

Svona var búið um reykskynjara svefnrýmisins en þar stóðu yfirfullir …
Svona var búið um reykskynjara svefnrýmisins en þar stóðu yfirfullir öskubakkar við hvert rúm. Ljósmynd/Norska Vinnueftirlitið (Arbeidstilsynet)

Auk Vinnueftirlitsins fór eftirlitsnefndin A-krim á vettvang en hún byggir á samstarfi nokkurra embætta og fylgist með brotum gegn vinnulöggjöf, svartri vinnu, félagslegum undirboðum og fleiru sem snýr að réttindum starfsfólks og vinnuveitenda í Noregi.

„Maður hefði haldið að svona stór aðili hér í bænum væri fagmannlegri en þetta,“ segir Gro Ellingsen hjá A-krim við norska ríkisútvarpið NRK í dag en fjöldi norskra fjölmiðla greinir frá málinu. „Þeir [The Old Irish Pub] eru starfandi í mörgum norskum bæjum og bera því við að þeir hafi ekki þekkt norsku reglurnar,“ segir Ellingsen enn fremur.

Sendi málsvörn í SMS-skeyti

Staðnum hefur nú verið gert að greiða 300.000 krónur, 4,2 milljónir íslenskra, í sekt vegna brotanna og er það nú rætt í bæjarstjórn Stavanger hvort rétt þyki að The Old Irish Pub haldi yfir höfuð vínveitingaleyfi sínu eftir afhjúpunina.

Framkvæmdastjóri staðarins, Peder Blak, svarar fyrirspurn NRK í gríðarlöngu máli í SMS-skeyti og kveður aðstandendur staðarins með böggum hildar yfir málinu, þeir Danirnir hafi bara ekki þekkt reglurnar í nágrannalandinu.

„Við vitum upp á okkur sökina og þykir þetta mjög leitt. [...] Við vorum búnir að kynna okkur reglurnar, gerðum það bara ekki nógu vel. [...] Sektin frá Vinnueftirlitinu hefur enga lagalega þýðingu fyrir afgreiðslu Stavanger á vínveitingaleyfi staðarins. [...] Okkar stefna er bara að reka huggulegan stað á svæðinu [en lokal aktør som skaper en inkluderende møteplass],“ er meðal þess sem fram kom í SMS-málsvörn Blak sem berst nú fyrir vínveitingaleyfi sínu.

NRK

Stavanger Aftenblad

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert