Fundust látin í helli á Tenerife

Karlmaður var handtekinn í gær á Tenerife en hann er ...
Karlmaður var handtekinn í gær á Tenerife en hann er grunaður um að hafa myrt barnsmóður sína og son. AFP

Spænska lögreglan fann lík þýskrar konu og tíu ára sonar hennar í helli á eyjunni Tenerife eftir að hafa handtekið föður drengsins. Samkvæmt frétt AFP sagði fimm ára sonur fólksins að honum hefði tekist að flýja úr hellinum.

Hjón fundu fimm ára piltinn og létu yfirvöld vita. Talsmaður lögreglunnar staðfestir að karlmaður hafi verið handtekinn í gærkvöldi.

Talsmaðurinn vildi ekkert segja til um hvað strákurinn sagði yfirvöldum. Dánarorsök fólksins er enn óljós en talið er að karlmaðurinn hafi beitt konuna og syni sína ofbeldi.

„Móðir og sonur hafa verið myrt. Við verðum að stöðva kynbundið ofbeldi,“ skrifaði Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, á Twitter-síðu sína.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum fóru konan og drengirnir að heimsækja manninn á Tenerife.

mbl.is