Gengur til liðs við Brexit-flokkinn

AFP

Fyrrverandi þingmaður breska Íhaldsflokksins, Ann Widdecombe, hefur sagt skilið við breska Íhaldsflokkinn, og gengið til liðs við Brexit-flokkinn. Hefur hún tilkynnt að hún ætli í framboð fyrir flokkinn í fyrirhuguðum kosningum til Evrópuþingsins 23. maí.

Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph, en Widdecombe var þingmaður Íhaldsflokksins 1987-2010 og átti sæti í skuggaráðuneyti flokksins 1998-2001 þar sem hún fór fyrst með heilbrigðismál og síðan innanríkismál.

Tilefni ákvörðunar Widdecombe er hvernig Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur haldið á málum varðandi útgöngu landsins úr Evrópusambandinu en Widdecombe er mikill stuðningsmaður útgöngunnar.

Widdecombe sagðist ætla að kjósa frambjóðanda Íhaldsflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í byrjun maí en síðan bjóða sig fram fyrir Brexit-flokkinn síðar í þeim mánuði. Tímabært væri að framkvæmt væri það sem meirihlutinn greiddi atkvæði með í þjóðaratkvæði í Bretlandi sumarið 2016 og landið segði skilið við Evrópusambandið (Brexit).

Widdlecombe er vel þekkt í Bretlandi og þykir segja skoðanir sínar umbúðalaust. Skammt er síðan hún lýsti því sjónarmiði sínu í sjónvarpi að Bretland hefði nú um stundir versta forsætisráðherra síðan Anthony Eden gegndi embættinu skömmu eftir miðja síðustu öld, versta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í sögu Verkamannaflokksins og versta þing Bretlands frá dögum Olivers Cromwell á 17. öld.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að Brexit-flokkurinn, sem var formlega stofnaður fyrr í þessum mánuði, fái hugsanlega mest fylgi allra flokka í Bretlandi í kosningum til Evrópuþingsins en leiðtogi hans er Nigel Farage, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert