Geta orðið Rússar á þremur mánuðum

Mynd frá fjöldafundi aðskilnaðarsinna í Dónetsk-héraði í nóvember í fyrra. …
Mynd frá fjöldafundi aðskilnaðarsinna í Dónetsk-héraði í nóvember í fyrra. Nú verður borgurum í Dónetsk og Lúgansk auðveldað að gerast rússneskir ríkisborgarar. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirritaði í dag forsetatilskipun, sem auðveldar fólki sem býr í austurhéruðum Úkraínu að fá rússneskan ríkisborgararrétt. Tilskipunin hefur verið kynnt á vef stjórnvalda í Kremlin.

Hún beinist að íbúum í héruðunum Dónetsk og Lúgansk, sem eru undir stjórn aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum og lúta ekki stjórn úkraínskra stjórnvalda.

Samkvæmt tilskipuninni munu þeir sem búa á þessum svæðum geta fengið rússnesk vegabréf innan þriggja mánaða frá því að þeir sækja um.

Samkvæmt því sem segir í plaggi rússneskra stjórnvalda er markmiðið með þessari ákvörðun að verja rétt og frelsi einstaklingsins og aðgerðin sögð í góðu samræmi við alþjóðalög.

Átök á milli úkraínska stjórnarhersins og rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu hafa staðið yfir sleitulaust frá árinu 2014 og hafa um 13.000 manns látist í stríðinu, samkvæmt frétt AFP.

Úkraínskir hermenn treysta víglínu sína nærri þorpinu Zolote í Lúgansk-héraði …
Úkraínskir hermenn treysta víglínu sína nærri þorpinu Zolote í Lúgansk-héraði í síðustu viku. Stríð þeirra við aðskilnaðarsinna sem njóta stuðnings Moskvu hefur staðið yfir frá 2014. AFP
mbl.is