Skjóta á flóttafólk í Tripoli

AFP

Flóttafólk sem er lokað inni í flóttamannabúðum (detention centre) í Tripoli, höfuðborg Líbýu, er skotmark stríðandi fylkinga í landinu en í gær særðust tíu alvarlega í árásum vígamanna á búðirnar.

Flóttamaður frá Erítreu sem Al Jazeera fréttastofan var í sambandi við í gegnum WhatsApp segir að ekkert lát hafi verið á skothríðinni og engin lyf í boði fyrir særða. 

Fréttastofan hefur eftir fjórum flóttamönnum í Qasr bin Ghashir-búðunum, 25 km suður af Tripoli, að þeir sem hafi ráðist á þá fylgi Khalifa Haftar að máli en sveitir hans hófu árás á höfuðborgina 4. apríl.

Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eru yfir 100 konur og 50 börn meðal þeirra 728 flóttamanna sem er haldið í búðunum. 

Paula Barrachina, talskona UNHCR, segir að þau hafi gríðarlegar áhyggjur af árásunum á Qasr bin Ghashir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert