Unglingur myrti bréfbera

Bréfberinn Jose Hernandez var myrtur eftir að hann reyndi að …
Bréfberinn Jose Hernandez var myrtur eftir að hann reyndi að stilla til friðar í rifrildi mæðgina. Hann var 47 ára gamall og fyrrverandi hermaður.

Lögregla í borginni Albuquerque í ríkinu Nýja-Mexíkó í Bandaríkjunum leitar nú að unglingi sem sagður er hafa myrt bréfbera á fimmtugsaldri, eftir að bréfberinn reyndi að malda í móinn í rifrildi piltsins við móður sína. CNN greinir frá.

Pilturinn heitir Xavier Zamora og er 17 ára gamall. Samkvæmt lögreglu lagði hann á flótta eftir að hafa orðið bréfberanum Jose Hernandez að bana á mánudag.

Lögregla segir móður piltsins hafa lýst því við yfirheyrslu að hún og sonur hennar hefðu verið að rífast á verönd einbýlishúss þeirra í suðvesturhluta borgarinnar, er bréfberinn kom aðvífandi með póstinn.

Hernandez mun hafa reynt að hjálpa móðurinni að róa piltinn niður, en drengurinn hafi orðið reiður við bréfberann og ógnað honum. Þá ákvað Hernandez að grípa til þess ráðs að sprauta piparúða á piltinn, sem rauk þá inn í húsið, náði í byssu og skaut bréfberann í kviðinn, með þeim afleiðingum að hann lést. 

Er lögregla kom á vettvang hafði pilturinn þegar lagt á flótta, og er hans nú leitað sem áður segir.

Atvikið átti sér stað fyrir utan þetta hús í suðvesturhluta …
Atvikið átti sér stað fyrir utan þetta hús í suðvesturhluta borgarinnar.

Vel liðinn bréfberi

Morðið hefur vakið mikinn óhug í hverfinu og raunar borginni allri, samkvæmt því sem CNN hefur eftir íbúum í grennd við morðstaðinn. Bréfberann Jose Hernandez þekktu flestir og hans verður saknað.

„Jose var mjög sérstakur maður – hann var ekki þessi venjulegi bréfberi,“ segir Michael Shepherd, nágranni mæðginanna, sem segir Hernandez ennfremur hafa verið þannig gerðan að hann lagði sig fram við að veita góða þjónustu og mynda tengsl við fólkið sem varð á vegi hans.

Tim Keller, borgarstjóri í Albuquerque, segir að borgarbúar syrgi með fjölskyldu Hernandez og samstarfsfólki hans hjá póstþjónustunni. Hann segir einnig að ljóst sé að taka verði á skotvopnaofbeldi, sem hafi tekið hörmulegan toll af samfélaginu.

„Íbúar Albuquerque, takið ykkur smá tíma á næstu dögum til þess að láta bréfberann ykkar persónulega vita að þið kunnið að meta hann, og gefið honum ást ykkar og stuðning,“ sagði borgarstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert