Sendir vopnaða hermenn að landamærunum

Landamæragirðing milli Bandaríkjanna og Mexíkó, skammt frá Rio Grande í …
Landamæragirðing milli Bandaríkjanna og Mexíkó, skammt frá Rio Grande í Texas. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að senda vopnaða hermenn suður að landamærunum að Mexíkó eftir að mexíkóskir hermenn miðuðu að hans sögn byssum að bandarískum hermönnum.

Trump er þarna væntanlega að vísa til atviks sem átti sér stað 13. apríl er mexíkóskir hermenn yfirheyrðu og miðuðu byssum sínum á tvo bandaríska hermenn við eftirlit á landamærum ríkjanna. 

„Mexíkóskir hermenn miðuðu nýlega byssum að hermönnum okkar, væntanlega til að beina athyglinni frá eiturlyfjasmyglurum á landamærunum. Eins gott að þetta gerist ekki aftur!“ skrifaði forsetinn á Twitter. „Við erum núna að senda VOPNAÐA HERMENN að landamærunum. Mexíkó er ekki að gera nærri því nóg í að handsama og endursenda!“

Donald Trump Bandaríkjaforseti á páskagleði í Hvíta húsinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á páskagleði í Hvíta húsinu. AFP

Bandarísk landamærayfirvöld segja að tveir bandarískir hermenn hafi ekið um á ómerktum bíl við eftirlitsstörf, Bandaríkjamegin landamæranna að Mexíkó, er fimm eða sex mexíkóskir hermenn nálguðust þá. Atvikið átti sér stað norður af Rio Grande í Texas. Mexíkóarnir hafi talið Bandaríkjamennina hafa farið yfir landamærin sem reyndist svo ekki rétt.

Heimildarmenn fréttastofu CNN segja að mexíkósku hermennirnir hafi beint byssum sínum að þeim bandarísku og tekið af þeim eina byssu. Þeir hafi svo ræðst stuttlega við og í kjölfarið hafi þeir farið hver í sína áttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert