Ellefu handteknir vegna morðs á lækni

Heilbrigðisstarfsmenn að störfum í Austur-Kongó.
Heilbrigðisstarfsmenn að störfum í Austur-Kongó. AFP

Yfirvöld í Austur-Kongó hafa handtekið ellefu í tengslum við morð á lækni hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) sem vann við að sporna við útbreiðslu ebólu í landinu.

Dómari í Nord-Kivu í austurhluta landsins sagði að talið væri að þrír hinna grunuðu hefðu skotið lækninn Richard Valery Mouzoko Kiboung til bana 19. apríl. Hinir væru grunaðir um aðild að morðinu.

Fram kom í yfirlýsingu heilbrigðisyfirvalda í Austur-Kongó að vonir stæðu til að þessar handtökur yrðu til þess að ná fram réttlæti í tengslum við morð á heilbrigðisstarfsmanni.

Mouzoko var skotinn til bana í árás á spítala í borginni Butembo. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að hann hafi verið fluttur þangað sem hluti af læknateymi sem átti að sporna við útbreiðslu ebólu í Austur-Kongó.

885 hafa látið lífið í far­aldri sem hef­ur geisað í Aust­ur-Kongó frá því í ág­úst. Litl­ar lík­ur eru tald­ar á því að far­ald­ur­inn nú geti breiðst út á heimsvísu. 

Neyðarástandi vegna ebólu var síðast lýst yfir vegna ebólufar­ald­urs í Vest­ur-Afr­íku 2013-2016 þegar yfir 11 þúsund lét­ust í ebólu-far­aldri. 2016 var einnig lýst yfir neyðarástandi vegna Zika-veirunn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert