ESB fordæmir vegabréfaákvörðun Rússa

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Evrópusambandið fordæmdi í dag rússnesk stjórnvöld fyrir að gera fólki á átakasvæðinu í Austur-Úkraínu auðveldara fyrir að afla sér rússneskra vegabréfa. Federica Mogherini, talsmaður utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, sagði þetta nýja árás á fullveldi Úkraínu. 

Aðgerð Rússa beinist að Donetsk og Lugansk sem klufu sig frá Kiev árið 2014 og er stjórnað af uppreisnarmönnum sem njóta stuðnings Rússa. Fólk á þessu svæði getur nú fengið afhent rússneskt vegabréf þremur mánuðum eftir umsókn. 

Nýkjörinn forseti kallar eftir þvingunum gegn Rússum

„Tímasetning ákvörðunarinnar, strax eftir forsetakosningar í Úkraínu, sýnir vilja Rússa til að valda óstöðugleika í Úkraínu og auka á átök þar í landi,“ sagði í tilkynningu Mogherini. Hvetur Evrópusambandið Rússa til að hverfa frá öllum aðgerðum sem fari í bága við Minsk-samkomulagið frá árinu 2015. Þá hafa Þjóðverjar og Frakkar einnig fordæmt ákvörðun Rússa.

Nýkjörinn forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur kallað eftir viðbrögðum alþjóðasamfélagsins og fer fram á að komið verði á fót frekari þvingunum gagnvart Rússum vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert