Flak SS Iron Crown loks fundið

Flak ástralsks fraktskips, sem japanskur kafbátur sökkti í síðari heimsstyrjöldinni, hefur fundist á hafsbotni í „nokkuð góðu ásigkomulagi“. Flakið fannst undan suðausturströnd Ástralíu, að sögn fornleifafræðinga. 

Fraktskipið SS Iron Crown varð fyrir tundurskeyti 4. júní árið 1942 er það var skammt undan ströndum Viktoríuríkis í Ástralíu. Það sökk svo á aðeins sextíu sekúndum. Í áhöfn voru 43 og fórust 38 í árásinni.

„Að finna flakið eftir að hafa vitað hvar það væri að finna í 77 ár færir ættingjum hinna látnu einhvern frið,“ segir fornleifafræðingurinn Peter Harvey, sem stjórnað hefur leitinni að flakinu. Skipið var 100 metrar að lengd og fannst flak þess um 100 kílómetrum undan strönd Viktoríu á um 700 metra dýpi. Það virðist nokkuð heillegt. „Við höfum kortlagt svæðið með sónar og hefur einnig tekið nærmyndir af flakinu með myndavélum,“ segir Emily Jateff, sérfræðingur hjá Hafsögusafni Ástralíu. Hún segir að útfrá þeim gögnum verði metið hvernig varðveita eigi flakið.

Til stendur að halda minningarathöfn um hina látnu á svæðinu.

Fimm komust af er skipið sökk. Þeim tókst að grípa björgunarvesti og ná haldi á braki sem rak frá borði þar til þeim var bjargað.

Á árunum 1942-43 sendu Japanar þrettán kafbáta upp að austurströnd Ástralíu. Þeim tókst að sökkva 22 skipum á þeim tíma. 194 fórust samtals í þeim árásum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert