Mótmæla við kauphöllina

Lögregla yfirheyrir einn mótmælenda við verðbréfamarkað Lundúna.
Lögregla yfirheyrir einn mótmælenda við verðbréfamarkað Lundúna. AFP

Umhverfissinnar mótmæla nú fyrir framan kauphöllina í Lundúnum, en þeir hafa staðið að mótmælum víðs vegar um borgina að undanförnu. Mótmælendurnir krefjast skjótra aðgerða vegna loftslagsbreytinga og hafa einnig mótmælt í fjármálahverfinu Canary Wharf þar sem þeir hafa staðið á lestum Dockland Light-lestakerfisins.

Sjö mótmælendur komu sér fyrir við inngang byggingarinnar þar sem lögregla hafði afskipti af þeim, en mótmælendurnir hafa verið erfiðir viðureignar undanfarna daga. Aðgerðirnar eru hluti ellefu daga langrar mótmælahrinu sem hópurinn stendur að og hefur átt sér stað í Oxford-stræti og á Waterloo-brúnni m.a. Meira en þúsund manns hafa verið handteknir og tugir verið ákærðir fyrir þátt sinn í þeim. 

Mótmælendurnir sátu sem fastast á stéttinni við verðbréfamarkaðinn.
Mótmælendurnir sátu sem fastast á stéttinni við verðbréfamarkaðinn. AFP

„Mörg þeirra fyrirtækja sem eru hvað skaðlegust umhverfinu eru með verðbréf sín skráð í kauphöll Lundúna,“ sagði í tilkynningu samtakanna. „Viðskipti hér eru þáttur í eyðileggingu plánetunnar okkar,“ sagði þar enn fremur. 

Krafa mótmælendanna er að breska ríkisstjórnin lýsi yfir neyðarástandi í loftslags- og umhverfismálum, að hún grípi til aðgerða til að hamla hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og að hún minnki útblástur gróðurhúsalofttegunda þannig sjálfbærni verði náð fyrir árið 2025. 

Mótmælendur komu sér einnig fyrir á lestum í fjármálakerfi borgarinnar.
Mótmælendur komu sér einnig fyrir á lestum í fjármálakerfi borgarinnar. AFP
mbl.is