Umdeilt kaffihús lokar

Konur greiddu minna á staðnum og fengu auk þess forgang …
Konur greiddu minna á staðnum og fengu auk þess forgang í sæti. AFP

Kaffi­hús í áströlsku borg­inni Mel­bour­ne sem lét karlmenn greiða meira fyrir kaffibollann lokar fyrir fullt og allt í lok mánaðarins. Margir karlar gagnrýndu verðlagninguna harðlega.

Kaffihúsið Handsome Her bað karlmenn um að greiða 18% meira fyrir bolla af kaffi eina viku í mánuði. Var það gert til að benda á launamun kynjanna í Ástralíu, sem er 17,7%.

Konur höfðu forgang í sæti á staðnum og 18% sem karlar greiddu aukalega runnu til hjálparsamtaka fyrir konur í neyð.

Í yfirlýsingu sem eigendur kaffihússins sendu frá sér á Facebook kemur fram að viðbrögðin við „karlaskattinum“ sýni meðal annars hversu viðkvæm karlmennskan er.

„Við vorum bara pínulítill staður sem reyndi að hafa konur ofar í forgangsröðinni en skyndilega vorum við orðin skotspónn allra í Melbourne og fólks á netinu,“ kom fram í yfirlýsingunni.

Eigendur neita því að staðnum hafi verið lokað vegna harðar gagnrýni eða vegna þess að honum hafi ekki gengið nógu vel. Ástæðan sé einfaldlega sú að eigendurnir vilji ekki reka kaffihúsið lengur.

mbl.is

Bloggað um fréttina