Ætla að drepa tvær milljónir katta

Villikettir eru sagðir bera ábyrgð á útrýmingu margra dýrategunda í …
Villikettir eru sagðir bera ábyrgð á útrýmingu margra dýrategunda í Ástralíu. Af Wikipedia

Yfirvöld í Ástralíu ætla að drepa tvær milljónir katta fyrir árið 2020. Um er að ræða villiketti en talið er að um 2-6 milljónir þeirra sé að finna í landinu.

Á sumum svæðum í landinu ætla yfirvöld að ganga enn lengra, í Queensland eru t.d. boðnir tíu dollarar fyrir höfuðleður hvers kattar. Þetta hafa dýraverndunarsamtökin PETA harðlega gagnrýnt og sagt grimmilegt.

Sama óþol gagnvart villiköttum er að finna í nágrannaríkinu Nýja-Sjálandi. Þar vilja sumir sjá „kattalausa“ framtíð.

Ástæðan er sögð sú að villikettir eru rándýr sem veiða sér til matar. 

Talið er að fyrstu kötturinn hafi komið til Ástralíu á sautjándu öld. Síðan þá hefur fjöldi þeirra stóraukist og er villiketti nú að finna um allt landið.

Komu með Evrópumönnum

Villikettirnir eru af sömu tegund og venjulegir heimiliskettir en þeir hafa margir hverjir kynslóðum saman lifað úti í náttúrunni og veitt sér til matar.

Í grein blaðsins Sydney Morning Herald um málið segir að talið sé að villikettir í Ástralíu beri ábyrgð á útrýmingu um 20 spendýrategunda. Því séu villikettir stærsta einstaka ógnin við dýralíf landsins. Í Ástralíu er að finna einstakt dýralíf, þar eru tegundir bæði fugla og spendýra sem er hvergi annars staðar að finna í heiminum.

Þessi dýr eru mörg hver auðveld bráð fyrir ketti sem komu til sögunnar miklu seinna. Talið er að þeir drepi um 1 milljón fugla og 1,7 milljón skriðdýra ár hvert.  Eitt spendýrið sem kettina þyrstir í, kanínurottan, er flokkuð sem viðkvæm tegund. „Við erum að fella ketti út af þessu, ekki af því að við hötum ketti,“ segir Gregory Andrews, sérfræðingur hjá hinu opinbera sem heldur utan um verkefnið. „Við verðum að taka erfiðar ákvarðanir til að bjarga dýrum sem við elskum og þeim dýrum sem skilgreina okkur sem þjóð.“

Of mikil áhersla á kattapláguna

Ekki eru allir hrifnir af þessari herferð gegn villiköttunum. Tim Doherty, vistfræðingur við Deakin-háskóla í Ástralíu, segist sammála því að kettirnir taki sinn toll. Hins vegar sé herferðin gegn þeim byggð á veikum vísindagrunni. Hann segir ómögulegt að meta fjölda kattanna, þeir gætu þess vegna verið um 18 milljónir talsins.

Einnig segir hann að kettirnir ógni ekki allir dýralífinu, á sumum svæðum sem ástandið verra en á öðrum og því þurfi að skipuleggja herferðina eftir því. Doherty bendir einnig á að stjórnvöld einblíni um of á kattapláguna. Margar aðrar hættur steðji að dýralífi Ástralíu, m.a. missir búsvæða dýranna, mennirnir gangi sífellt nær þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert