Dómari ákærður fyrir að aðstoða innflytjanda

AFP

Bandarískur dómari og fyrrverandi starfsmaður dómstóls hafa verið ákærðir fyrir að aðstoða mann við að komast undan innflytjendalögreglunni, að því er segir í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneytinu.

Dómarinn Shelley Richmond Joseph og Wesley MacGregor eru ákærðir fyrir að hindra gang réttvísinnar og fyrir að aðstoða manninn. MacGregor er jafnframt ákærður fyrir að hafa logið fyrir alríkisdómi um málið. 

Í yfirlýsingunni segir dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Andrew Lelling, að brot á alríkislögum verði ekki liðin og ekki sé hægt að velja hvaða alríkislögum maður vilji framfylgja. Skiptir þar engu hvaða persónulegu skoðanir maður kann að hafa. 

Um er að ræða mál frá síðasta ári þegar útlendingur var handtekinn og ákærður fyrir að vera á flótta undan réttvísinni og fyrir vörslu fíkniefna. Hann átti að koma fyrir dómara, Joseph, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu. Innflytjendaeftirlit Bandaríkjanna, US Immigration and Customs Enforcement (ICE), hafði afskipti af málinu og samkvæmt upplýsingum frá því hafði manninum í tvígang verið vísað úr landi og var í endurkomubanni til ársins 2027.

ICE gaf út skipun um að manninum yrði vísað úr landi og að hann yrði hnepptur í varðhald þegar hann kæmi fyrir dómara. Starfsmaður dómstólsins, að beiðni Josephs, bað starfsmann ICE um að bíða í anddyrinu og að sakborningurinn myndi koma þangað eftir að hafa verið inni í réttarsalnum. Þess í stað á MacGregor að hafa aðstoðað manninn við að fara aðra leið út úr dómshúsinu og notaði við það aðgangskort sitt til þess að hleypa honum út í frelsið.

mbl.is
Uppsetning rafhleðslustöðva
Setjum upp og göngum frá öllum gerðum rafhleðslustöðva Mikil áralöng reynsla ...
Tæki fyrir fjórhjólið
Fjölmörg tæki í boði fyrir fjórhjólið www.hardskafi.is...
Jema A/S danskar skæralyftur
Við seljum hinar vinsælu skæralyftur frá JEMA . Lyfta 1,2 m og 3 T ,glussadrifn...
Sumarhús- Gestahús- Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...