Harðorður í garð Bandaríkjanna

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un og forseti Rússlands, Vladimír Pútín.
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un og forseti Rússlands, Vladimír Pútín. AFP

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, sakar Bandaríkin um að hegða sér gegn betri vitund og að ástandið á Kóreuskaganum sé hættulegt. Hvernig mál þróist þar sé í höndum Bandaríkjanna. Kim átti fund með forseta Rússlands, Vladimír Pútín, í hafnarborginni Vladivostok í nótt og þar tryggði Kim sér stuðning Pútíns í deilunni við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu.

Pútín, sem þekktur er fyrir að láta erlenda gesti bíða eftir sér, beið eftir Kim þegar hann mætti til fundarins og vel fór á með leiðtogunum tveimur þegar þeir hittust. Fundur þeirra stóð yfir í fimm klukkustundir á eyju fyrir utan Vladivostok.

Kim Jong-un er nú farinn frá Rússlandi.
Kim Jong-un er nú farinn frá Rússlandi. AFP

Kim átti fund með Trump undir lok febrúar og lauk honum án niðurstöðu. Trump sagði að Kim hefði sett það skilyrði fyrir lokun kjarnorkumiðstöðvarinnar í Yongbyon að öllum refsiaðgerðunum gegn Norður-Kóreu yrði aflétt og Bandaríkin gætu ekki fallist á það. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu neitaði þessu og sagði að Kim hefði aðeins óskað eftir því að refsiaðgerðirnar yrðu mildaðar.

Rússar hafa þegar farið fram á að dregið verði úr refsiaðgerðunum á sama tíma og Bandaríkin saka þá um að reyna að aðstoða Norður-Kóreu á bak við tjöldin. Því neita yfirvöld í Moskvu. Fyrir viku kröfðust stjórnvöld í Norður-Kóreu þess að utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, kæmi hvergi nærri viðræðum ríkjanna tveggja og saka hann um að bera ábyrgð á að þær fóru út af sporinu. 

Leiðtogi Norður Kóreu, Kim Jong-un.
Leiðtogi Norður Kóreu, Kim Jong-un. AFP
mbl.is