Þóttist vera auðugur erfingi

Anna Sorokin þóttist vera þýskur erfingi að miklum auðæfum sem ...
Anna Sorokin þóttist vera þýskur erfingi að miklum auðæfum sem ætlaði sér mikla hluti í New York. AFP

Réttrahöld standa nú yfir í New York í máli Önnu Sorokin, sem taldi samfélagi ríka og fræga fólksins í New York trú um að hún héti Anna Delvey og væri erfingi að milljarða dollara auðæfum. Sorokin leigði einkaþotu, sótti öll réttu samkvæmin og jós fé í alla sem hún hitti. Sá sem bar handtösku hennar eða var Uber bílstjóri hennar gat átt von á 100 dollara þjórfé, eða um 12.000 kr.

Raunveruleikinn var hins vegar allt annar og Sorokin er ekki erfingi milljarða dollara og þegar kreditkort hennar virkuðu ekki lengur og hún var rekin út af lúxushótelinu sem hún bjó á, lentu aðrir í því að greiða svimandi háar skuldir hennar.

Faðir Sorokin reyndist heldur ekki auðmaður að sögn New York Magazine, heldur fyrrverandi flutningabílstjóri sem í dag rekur fyrirtæki sem sér um hita- og kælibúnað.

BBC segir Sorokin nú hafa verið fundna seka um fjölda brota, m.a. um stuld á yfir 200.000 dollurum eftir að hafa steypt sér í skuldir og með því að reyna með svikum að útvega sér bankalán. Sjálf hefur Sorokin lýst sig saklausa af ákærunum, en hún á nú allt að 15 ára dóm yfir höfðu sér.

Þurfti að feika“ það þar til hún gat „meikað“ það

Sorokin fullyrti, er hún flutti til New York sem Anna Delvey að tilgangurinn væri að koma á fót listamiðstöð í anda Soho House. Sagði hún í viðtali við New York Magazine að hún hefði hug á að nefna miðstöðina Anna Delvey Foundation. Kvaðst Sorokin hafa augastað á rými á besta stað í sögufrægri byggingu fyrir listamiðstöðina og fullyrti hún að hún væri þegar búin að tryggja sér listamanninn Christo fyrir opnunarsýninguna.

Svo stóryrtum yfirlýsingum þarf að fylgja viss lífstíll og Sorokin nýtti sér það til fulls. „Anna varð að „feika“ það þar til hún gat „meikað“ það,“ sagði lögfræðingur hennar Todd Spodek við kviðtómendur. Kvað hann skjólstæðing sinn hafa látið afvegaleiðast af glamúr lífstílnum er hún sá hvernig peningar og jafnvel tálsýnin um þá gat opnaði allar dyr.

Samkvæmt dómsskjölum þá gaf Sorokin sig út fyrir að vera þýskur erfingi auðæfa og að hún væri að reyna að fá 20 milljón dollara lán í bandarískum banka fyrir listamiðstöðina. Er hún sögð hafa framvísað fölsuðum reikningsyfirlitum og fölsuðum ávísunum sem síðan reyndust innistæðulausir.

Eyddi yfirdrættinum í tískufatnað og lúxushótel

Saksóknarar segja að þó Sorokin hafi ekki náð að tryggja sér milljóna dollara bankalánið, þá fékk hún 100.000 dollara yfirdráttarheimild hjá City National Bank gegn framvísun falskra staðfestinga á erlendum eignum. Yfirdrátturinn var hins vegar aldrei greiddur með símgreiðslu líkt og hún lofaði.

Þess í stað eyddi Sorokin  55.000 dollurum í dvöl á lúxushóteli og tískufatnað, tíma hjá einkaþjálfara og aðra einkaneyslu. Hún vingaðist einnig við blaðakonu New York Magazine og bauð henni, einkaþjálfara sínum og ljósmyndarar sem blaðakonan þekkti með sér í lúxusferð til Marokkó. Er þangað var komið virkuðu kreditkort hennar hins vegar ekki og ljósmyndarinn lánaði henni sitt kort til að greiða 62.000 dollara ferðina sem ekki hefur enn fengist endurgreidd.

Kveðst ljósmyndarinn Rachel DeLoache Williams, sem var lykilvitni í réttarhöldunum, reglulega fá kvíðaköst vegna streitunnar sem málið hafi valdið henni. „Þetta var eins og töfrabragð,“ skrifaði hún „og ég skammast mín fyrir að viðurkenna að ég var einn fylgihlutanna og áhorfendur líka. Anna var eins og einn af þessum fallegu draumum um New York. Eins og eitt þessara kvölda sem ætlar engan endi að taka, en svo kemur reikningurinn.“

Lögfræðingur Sorokin segir hana þó aldrei hafa ætlað sér að fremja glæp. „Í hennar augum þá var þetta það sem fólk gerði,“ sagði Spodek. „Líf allra var fullkomlega stílfært fyrir samfélagsmiðla. Allir voru að blekkja og peningar urðu til með auglýsingaskrumi.“

mbl.is
Nudd Nudd Nudd
Nudd Nudd Nudd. Relaxing massage downtown Akureyri. S. 7660348, Alina...
Frímerkjasafnarar
Frímerkjasafnarar Þýskur alvöru frímerkjasafnari vill komast í kynni við íslensk...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...
Hellulagnir
Vertíðin hafin hafið samband í símum: 551 4000, 690 8000 á verktak@verktak.is...