Bjargaði hundruðum á Srí Lanka

Kona grætur yfir dauðsfalli ættingja sem átti sér stað í …
Kona grætur yfir dauðsfalli ættingja sem átti sér stað í sprengjuárás í Srí Lanka. AFP

Ramesh Raju er hylltur sem hetja í Srí Lanka eftir að hann lést við að hindra för manns með sjálfsmorðssprengjur inn í evangelísku kirkjuna Zion í Batticaloa héraðinu í Srí Lanka. Með því bjargaði hann hundruðum sem voru inni í kirkjunni.

Raju lést ásamt 28 öðrum, þar af 14 börnum, sem voru fyrir utan kirkjuna. Um 600 manns voru innandyra og sluppu frá sprengjunni. Kirkjan var ein af þremur kirkjum sem ráðist var á en einnig var árás gerð á þrjú hótel. 

Tæpri viku eftir árásirnar hanga veggspjöld og myndir af Raju við hlið vegarins sem leiðir að húsi hans. Raju var 40 ára gamall tveggja barna faðir og ekkja hans, sem starfar sem kennari í sunnudagaskóla, hefur fengið fjöldann allan af samúðarkveðjum. 

„Þegar hann grunaði að maðurinn væri með sprengjur þá hefði hann getað hlaupið í öruggt skjól en ég held að hann hafi ákveðið að stofna frekar til ryskinga svo maðurinn kæmist ekki inn í kirkjuna,“ sagði faðir Raju, hinn 63 ára gamli Velusami Raju, við fréttastofuna AFP.

„Ég er ofboðslega stoltur af því að hann hafi bjargað svona mörgum, sérstaklega svona mörgum börnum,“ bætti faðirinn við. 

Forðaði fjölda barna frá lífláti

Kirkjan var full af fólki þegar árásarmanninn bar að garði. Sérstaklega voru mög börn í kirkjunni en sunnudagaskólanum hafði lokið skömmu áður. Raju hafði boðið sig fram til að stjórna mannfjöldanum. 

Þegar Raju sá ókunnan mann sem hélt á tveimur gríðarstórum töskum stóð Raju í vegi fyrri manninum og bað hann um að skilja töskurnar eftir. Sprengjan sprakk í deilunni á milli mannanna tveggja. 

„Hann var virkilega góður maður,“ sagði faðir Raju sem lýsti syni sínum sem stoð og styttu fjölskyldunnar. Faðir Raju ræddi við hann í síma nokkrum mínútum áður en sprengjan sprakk. Raju var upptekinn og lofaði að hringja í föður sinn þegar guðsþjónustunni lyki. Þegar sími föðurins hringdi aftur þá var það ekki Raju heldur sóknarbarn sem tilkynnti föðurnum að Raju hefði látist í sprengingu. 

Yngri systir Raju lést einnig í sprengingunni ásamt eiginmanni sínum og 20 mánaða gömlum syni þeirra. 

„Ég missti barnabarnið mitt en á sama tíma er ég svo stoltur að sonur minn hafi bjargað svo mörgum börnum svo aðrar fjölskyldur þurfi ekki að upplifa það sama og við,“ sagði faðir Raju og reyndi að halda aftur af tárunum. „Ég vona að gjörðir sonar míns blási öðrum hugrekki í brjóst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert