Skotinn til bana í Finnmörku

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Tveir karlmenn hafa verið handteknir af lögreglunni í Noregi eftir að karlmaður var skotinn til bana í heimahúsi í nótt í þorpinu Mehamn í Finnmörku. Fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten að lögreglan útiloki ekki að fleiri hafi komið við sögu í málinu.

Tilkynning barst lögreglunni um klukkan hálffjögur í nótt að íslenskum tíma þess efnis að karlmaður hefði verið skotinn í Mehamn samkvæmt fréttinni. Lögreglumenn fóru á staðinn og fundu alvarlega særðan mann. Hafin var endurlífgun sem ekki skilaði árangri.

Fram kemur í yfirlýsingu frá norskum yfirvöldum að annar hinna handteknu liggi undir grun fyrir að hafa skotið þann sem fyrir árásinni varð. Enn fremur að tengsl séu á milli árásarmannsins og hins látna. Ekki verði þó upplýst hver þau tengsl séu.

Hinn ákærði er 35 ára gamall. Lögreglan hefur nú til rannsóknar með hvaða hætti hinn karlmaðurinn sem var handtekinn, og er 32 ára gamall, tengist málinu. Sá var með hinum í húsi í þorpinu Gamvik þegar lögreglan hafði uppi á þeim í kjölfar ábendingar.

Skömmu eftir klukkan átta í morgun að íslenskum tíma fékk lögreglan ábendingu um að bifreið hefði verið ekið ofan í skurð skammt frá Gamvik. Fram kemur í fréttinni að mennirnir tveir hafi verið í bifreiðinni og útafaksturinn sé talinn tengjast skotárásinni.

Fréttavefur dagblaðsins Verdens Gang segir að hinn látni hafi verið fertugur að aldri og hefur það eftir norskum yfirvöldum. Ennfremur kemur fram að skotárásin hafi átt sér stað í heimahúsi í Mehamn en ekki kemur fram hvort hinn látni hafi verið húsráðandi þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert