Norskur sjómaður bjargar mjaldri

Talið er líklegt að mjaldurinn hafi sloppið úr herstöð Rússa.
Talið er líklegt að mjaldurinn hafi sloppið úr herstöð Rússa. Skjáskot úr myndskeiði NRK

Norskur sjómaður var lofaður í gær fyrir að ná að fjarlægja ólar sem fastar voru við mjaldur. Talið er að mjaldurinn hafi sloppið úr rússneskri herstöð. Á síðustu dögum hefur mjaldurinn nálgast fiskibáta fyrir utan strönd Finnmerkur í Norður-Noregi.

Sjómanninum Joar Hesten tókst seint á föstudag að fjarlægja ólarnar sem fastar voru við hvalinn. Þá höfðu nokkrir starfsmenn norsku Fiskistofunnar gert tilraun til að fjarlægja ólarnar með litlum árangri, samkvæmt norska ríkissjónvarpinu, NRK.

Á vef NRK má sjá myndband og fjölda mynda af björgun hvalsins.

Hesten klæddi sig í viðlagabúning áður en hann stökk út í ískaldann sjóinn til að hjálpa hvalnum. „Þegar ég var í vatninu kom hvalurinn mjög nálægt mér og ég náði að teygja mig í hann og leysa fremstu ólina,“ sagði Hesten við NRK.

Hesten sagði að erfiðara hefði verið að leysa hina ólina. Hann náði þó loks að festa krók í ólina og hún losnaði um leið og hvalurinn synti í burtu. 

Ólarnar hefðu getað skaðað hvalinn

Hvalafræðingurinn Audun Rikardsen var hæstánægður með frammistöðu Hesten. Rikardsen sagði að hvalurinn hefði líklega ekki verið fullvaxinn og hefði því liðið skaða af því að vaxa með ólarnar á sér. 

Rikardsen hafði verið í sambandi við rússneskan kollega sinn sem taldi að hvalurinn hefði verið notaður af rússneska hernum. 

Vitað er að bandaríski herinn hefur þjálfað höfrunga og önnur sjávarspendýr allt frá árinu 1960, í hernaðarlegum tilgangi, til dæmis tundurduflaleit.

Umfjöllun NRK um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert