Baghdadi í myndbandi Ríkis íslams

Abu Bakr al-Baghdadi í myndbandinu.
Abu Bakr al-Baghdadi í myndbandinu. AFP

Leiðtogi Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi er sagður hafa birst í fyrsta sinn opinberlega í fimm ár í áróðursmyndbandi sem hryðjuverkasamtökin sendu frá sér í dag.

Óljóst er hvar myndbandið var tekið upp en maðurinn sem talið er að sé Baghdadi talar þar um mánaðarlanga bardaga um Baghouz, síðasta vígi Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands sem féll í síðasta mánuði.

„Baráttunni um Baghouz er lokið,“ sagði maðurinn, sitjandi á púða, við þrjá menn.

Hann bætti þó við að aðgerðir Ríkis íslams gegn Vesturlöndum séu hluti af „langri baráttu“ og að samtökin myndu hefna sín vegna þeirra liðsmanna sem hefðu verið drepnir.

„Það verða fleiri aðgerðir eftir þennan bardaga,“ sagði hann.

Baghdadi, sem er 47 ára, sást síðast síðast opinberlega í írösku borginni Mósúl árið 2014 þegar hann lýsti yfir kalífadæmi Ríkis íslams á þeim svæðum sem samtökin höfðu lagt undir sig í Sýrlandi og Írak. Síðan þá hafa margar fregnir borist af því að hann hefði verið drepinn eða hann særst.

Síðasta upptakan með rödd hans heyrðist í ágúst síðastliðnum, eða átta mánuðum eftir að írösk stjórnvöld tilkynntu að þau hefðu sigrað Ríki íslam og þegar hersveitir studdar af Bandaríkjamönnum voru nálægt sigri á samtökunum í Sýrlandi.

mbl.is